Mótmæla naumum hlut Austurlands á samgönguáætlun
Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi skorar á samgönguráðherra að hafa samráð við landshlutasamtök áður en endanleg drög að samgönguáætlun verða lögð fram. Ekki verður byrjað á Fjarðarheiðargöngum næstu tíu árin miðað við fyrstu drög.Fyrir helgi bárust fréttir af fyrstu drögum áætlunarinnar sem kynnt hafa verið samgöngunefnd Alþingis en eru ekki enn komin í almenna dreifingu.
Miðað við þau er ekki gert ráð fyrir vegagerð um Öxi fyrr en árin 2028-2032 og göngum til Seyðisfjarðar fyrr en 2029-2033.
Í ályktun frá fundi stjórnarinnar frá á föstudag er lýst yfir miklum vonbrigðum með hlut Austurlands og miklar tafir sem blasi við á nauðsynlegum samgöngubótum í fjórðungnum. Þetta sé sérstaklega ámælisvert þar sem nýframkvæmdir og viðhald vega á Austurlandi hafi verið í algjöru lágmarki síðustu ár.
Stjórnin krefst því að hlutur Austurlands verði réttur og tekið tillit til forgangsröðunar sem ítrekað hefur samþykkt á vettvangi SSA. Eðlilegt sé að ráðherra og Alþingi fari eftir áherslum sem mótaðar séu á vettvangi landshlutasamtaka sveitarfélaga.
Í því samhengi má nefna Fjarðarheiðargöng, nýjan veg yfir Öxi auk fjölda brýnna viðhaldsverkefna víða í fjórðungnum sem SSA hefur ályktað um.
Því er skorað á ráðherra að hefja samtal við landshlutasamtökin áður en endanleg drög verði lögð fyrir Alþingi. Verði það ekki gert sé allt tal stjórnvalda um eflingu sveitarstjórnarstigsins orðin tóm.