Mótmæli og samhugur landsbyggðarinnar að skila árangri?
Þeim tilmælum hefur verið komið til HSA að segja ekki upp fólki vegna niðurskurðarins nú strax og ekki fyrr en eftir næstu mánaðamót, þ.e. október/nóvember.
Samkvæmt nýjasta tölublaði Austurgluggans sem kemur út á föstudaginn nk. þá hefur framkvæmdastjórn HSA fundað með fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins varðandi boðaðan niðurskurð stofnunarinnar. Í orðsendingu frá Einari Rafni Haraldssyni, forstjóra HSA, segir að aðstoðarmaður heilbrigðis- og félagsmálaráðherra hefði fundið fyrir óánægju vegna niðurskurðarins og að ráðuneytinu hefði borist mótmæli frá Austurlandi vegna fjárveitinga til HSA. Þá tók hún fram að auglýsingaherferð hagsmunaaðila HSA í útvarpi hefði vakið eftirtekt.
Í orðsendingu HSA segir að „fulltrúar HSA hafi bent á nokkur atriði í fjárlögunum sem augljóslega þarf að endurskoða til hækkunar vegna þess að um misreikning eða vöntun forsenda er að ræða."
Þeim tilmælum var komið til HSA að segja ekki upp fólki vegna niðurskurðarins nú strax og ekki fyrr en eftir næstu mánaðamót, þ.e. október/nóvember. Samkvæmt framansögðu mun stofnunin búa sig undir að mæta niðurskurðarkröfu fjárlagafrumvarpsins, tæpum 500 m.kr. Fram kom að vænta má annars fundar með ráðuneytinu um eða eftir næstu mánaðamót.
Af ummælum þingmanna ríkisstjórnarflokkanna síðustu daga auk ummæla heilbrigðisráðherra í kvöldfréttum RÚV þann 20. október þá má greina ákveðinn vilja til þess að fara betur yfir þær kröfur sem gerðar eru til heilbrigðisstofnanna landsbyggðarinnar og draga úr þeim.
Austfirðingar fjölmenntu þegar mótmælt var fyrirhuguðum niðurskurði heilbrigðisstofnanna og eins á borgarafund á Egilsstöðum. Þá hafa fjölmörg hagsmunafélög, sveitarfélög og stjórnmálahreyfingar sent frá sér ályktanir til að mótmæla hörðum niðurskurðarkröfum HSA og þeirri stefnubreytingu í heilbrigðismálum sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu.
Agl.is hefur fengið fjölmargar orðsendingar vegna niðurskurðarins þ.a.m. þessar ályktanir sem koma frá félagi ungra framsóknarmanna á Austurlandi og Kennarafélagi Verkmenntaskóla Austurlands.
"Eysteinn félag ungra framsóknarmanna á Austurlandi mótmælir harðlega fyrirhuguðum niðurskurði hins opinbera hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Krefst Eysteinn þess að Ríkisstjórnin endurskoði fjárveitingar til HSA á fjárlögum ársins 2011.
Telur stjórn félagsins algerlega óásættanlegt að þjónusta við íbúa fjórðungsins sé skert með þessu móti. Mun fyrirhuguð aðgerð hafa mikil áhrif á öryggi íbúanna gagnvart almennri heilbrigðisþjónustu og mun hún einnig hafa mikilar afleiðingar í för með sér vegna óhjákvæmilegrar fækkunar starfa innan heilbrigðisþjónustunnar á svæðinu. Hvetur Eysteinn ríkisstjórnina til að deila þeim byrgðum sem munu falla á heilbrigðiskerfi vegna fyrirhugaðs niðurskurðar jafnt á allar þær stofnanir og aðila sem heyra undir málaflokkinn en ekki skerða grunnþjónustu við íbúa á landsbyggðinni langt um fram það sem mun bitna á íbúum höfuðborgarsvæðisins."Kennarafélag Verkmenntaskóla Austurlands sendi eftirfarandi ályktun:
"Kennarafélag Verkmenntaskóla Austurlands ályktar um þær þrengingar sem lagðar eru á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og þar með Heilbrigðisstofnun Austurlands.
Það er fordæmalaus árás á jafnvægi í byggð landsins að ætla að skera niður hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands í þeim mæli sem fyrirhugaður er. Fyrirtæki í Fjarðabyggð hafa á s.l. ári lagt til 20 – 25% af útflutningsverðmætum þjóðarbúsins. Atvinnustarfsemin á bak við allar þessar útflutningstekjur krefst þess öryggis sem góð heilbrigðisþjónusta veitir og þyrfti fremur að efla hana en draga úr.
Ef af þessum niðurskurði verður er afleiðingin sú að héðan flytjast ótaldir einstaklingar ásamt fjölskyldum sínum, fólk með mikla menntun, mörg börn og eftir situr sveitarfélagið snautt af þekkingu og í sárum. Það er óskiljanlegt að stjórn sem kennir sig við réttlæti og jöfnuð skuli gera árás á þau minni sveitarfélög sem liggja vítt og breitt um landið og reyni að þrýsta öllum íbúum þeirra til höfuðborgarsvæðisins. "