Múlaþing skrifar undir viljayfirlýsingu um samstarf við skoskan háskóla

Sveitarfélagið Múlaþing og Háskóli Hálanda og eyja í Skotlandi (University of Highlands and Islands – UHI) hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf á sviði háskólastarfs.

„Við erum að vinna í þessu. Þetta snýst um að styrkja háskólastarfsemi í sveitarfélaginu. Hugsunin er að auka aðgengi fyrir Múlaþing og Austurland að háskólastarfsemi,“ segir Jón Þórðarson, fulltrúi sveitarstjóra á Borgarfirði sem leitt hefur viðræðurnar við UHI ásamt Óttari Kárasyni og Tinnu Magnusson.

Viðræður um samstarf við UHI hafa staðið um allnokkurt skeið en yfirlýsingin var loks undirrituð um miðjan mars. „Þetta byggir á gömlum tengslum sem ég hafði. Ég vann lengi í háskólum og hafði heimsótt UHI og forvera skólans á tíunda áratugnum.

Óttar var í námi í Stirling í Skotlandi í fyrra og náði þá að hitta rektor UHI. Þannig opnuðust þessu samskipti nú,“ útskýrir Jón.

Reka 13 háskólasetur

Höfuðstöðvar UHI eru í Inverness í Skotlandi en alls rekur skólinn 13 háskóla- og rannsóknasetur í skosku hálöndunum og eyjunum auk 70 minni kennslustöðva. Við skólann eru um 40 þúsund nemendur.

Í minnisblaði með viljayfirlýsingunni er farið yfir ýmsa möguleika til samstarfs Múlaþings og UHI. Nefnt er að leitast verði við að styrkja nemendur úr Múlaþingi til að sækja skólavist við UHI, en þegar hefur ein kynning á háskólanum verið haldin í Menntaskólanum á Egilsstöðum.

Þá er nefnd tækifæri fyrir fyrirtæki í sveitarfélaginu til að leita eftir samstarfi við faghópa hjá UHI til þróunar og rannsókna. Skólinn er með umfangsmikla starfsemi í landbúnaði, ferðaþjónustu, fiskeldi og efnahagsmálum.

Nota það sem fyrir er

Eins eru nokkrar fræðslustofnanir sem notið gætu góðs af samstarfi UHI. Til dæmis er Hallormsstaðarskóli kominn með námsbraut á háskólastigi og á Skálanesi í Seyðisfirði hefur verið frumkvöðlastarf á háskólastigi í nokkur ár. Þar hefur verið tekið á nokkrum nemendahópum frá erlendum háskólum. Menntaskólinn á Egilsstöðum hefur vakið athygli fyrir fjarnám.

„Við höfum séð fyrir okkur á að byrja á að styrkja það sem við höfum. Það er vel hægt að byggja við starfsemi eins og verið hefur á Hallormsstað eða Skálanesi,“ segir Jón.

Þá er í minnisblaðinu bent á líkindi með aðstæðum í skoska dreifbýlinu og Austurlandi þar sem fjarlægðir eru talsverðar og fólk býr dreift. Bent er á að háskólinn sé í grunninn byggðaþróunarverkefni og hafi lukkast vel sem slíkt.

An Lòchran háskolasetrið í Inverness. Mynd: UHI

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.