Gistináttatölur Hagstofu til endurskoðunar eftir umfjöllun Austurfréttar
Hagstofa Íslands endurskoðar nú verklag við flokkun gagna um gistinætur eftir að Austurfrétt greindi frá óánægju gistihúsaeigenda á Austurlandi með tölfræðina síðustu árin.
Austurland enn einu sinni að tapa töluverðum fjölda gesta umfram flestalla aðra landshluta en Hagstofa Íslands tekur reglulega saman gistináttanýtingu ferðafólks á íslenskum hótelum.
Austurfrétt greindi frá því í október síðastliðnum, eins og lesa má um hér, að gistiþjónustuaðilar á Austurlandi væri efins um að tölur Hagstofunnar um þjóðerni gesta á hótelum og gististöðum væri rétt. Var þar sérstaklega gagnrýnt að næsta ómögulegt væri sá mikli fjöldi Íslendinga sem upp er gefinn gæti verið réttur.
Við eftirgrennslan hjá Hagstofunni vegna málsins kom fram að sökum mismunandi bókunarkerfa gæti verið að gistingar Íslendinga væru oftaldar.
Eftirmáli Hagstofunnar er eftirfarandi:
Unnið er að endurskoðun á flokkun gagna um gistinætur og er því ekki unnt að birta sundurliðun á fjölda gistinátta eftir þjóðerni að svo stöddu. Rannsókn stendur yfir á grunngögnum frá árinu 2021 þar sem skoðað er hvort gistinætur Íslendinga hafi verið ofmetnar í mælingum og gistinætur erlendra gesta að sama skapi vanmetnar. Á meðan unnið er að frekari skoðun á gögnunum verður því tölfræði um gistinætur ekki birt eftir þjóðerni gesta. Rétt er þó að geta þess að ekki er ástæða til að véfengja heildarfjölda gistinátta. Eingöngu ber að setja fyrirvara á skiptingu fjölda gistinátta eftir þjóðerni.
Þar sem útreikningar á áætluðum óskráðum gistinóttum erlendra ferðamanna byggja á upplýsingum um fjölda gistinátta eftir þjóðerni er sömuleiðis ekki unnt að birta staðfestar tölur um áætlaðar óskráðar gistinætur erlendra ferðamanna hér á landi í október.