Munar um hverja krónu fyrir sveitarfélögin

Gauti Jóhannesson sveitarstjóri á Djúpavogi segir að það muni um hverja krónu sem sveitarfélögin geti fengið frá hinu opinbera. Eins og fram hefur komið í fréttum um helgina er talið að sveitarfélögin í landinu í heild þurfi um 33 milljarða kr. til að bæta upp tekjumissinn sem orðið hefur vegna COVID.

„Við höfum orðið fyrir skakkaföllum eins og aðrir enda er ferðaþjónustan orðin stór þáttur í umsvifum sveitarfélagsins,“ segir Gauti í samtali við Austurfrétt. „Þar við bætist samdráttur í útflutningi á laxi og verðlækkanir en við slátrum öllum eldislaxi á Austfjörðum.“

Fram kemur í máli Gauta að sem dæmi um samdráttinn megi nefna að dregið hefur úr staðgreiðsluskatti um rúm 2% á fyrstu sjö mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra.

„Við brugðumst við þessum samdrætti í sumar með því að fjölga fólki í vinnu hjá okkur,“ segir Gauti. „Við fórum í stórt umhverfis- og hreinsunarátak. Við höfum því ekki slegið af heldur þvert á móti reynt að bæta í.“

Aðspurður um hvað Djúpivogur þyrfti í framlag frá hinu opinbera segir Gauti erfitt að meta það í augnablikinu. Það sé þó ljóst að sú upphæð hleypur á einhverjum milljónum króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar