Náttúruhamfaratrygging varar sveitarfélög við byggingum á þekktum flóðasvæðum
Náttúruhamfaratrygging Íslands (NTÍ) hefur sent öllum sveitarfélögum landsins áminningu um heimild í lögum til að lækka bætur ef byggingar eru reistar á svæðum sem sérstaklega eru viðkvæm fyrir náttúruhamförum. Bæjarráð Fjarðabyggðar telur þörf á að ábyrgð tryggingarinnar verði skýrð nánar.
NTÍ sendi öllum sveitarfélögum bréf í september þar sem minnt er á ákvæði í lögum um stofnunina að heimilt sé að lækka bætur eða hafna bótum alfarið hafi hús eða mannvirki verið reist á stað sem almennt var vitað fyrirfram að væri hættulegur með tilliti til náttúruhamfara. Það á til dæmis við ef mannvirki á sama stað hefur oftar en einu sinni orðið fyrir sams konar tjóni.
Í bréfi NTÍ segir að sérstaklega sé horft til vaxandi tjóna á nýlegum mannvirkjum á þekktum vatns- og sjávarflóðasvæðum og umræðu um frekari framkvæmdir á slíkum svæðum. Áréttuð er ábyrgð sveitarfélaga í skipulagi og réttur almennings til upplýsinga um takmarkanir á bótarétti.
Því er beint til sveitarfélaganna að tryggja að áhættumat sé uppfært og tekið inn í allt skipulag. Eins að varnir, til dæmis fráveitukerfi, séu skilgreind og fjármögnuð áður en framkvæmdir hefjast.
Hvað þýðir þekkt náttúruhamfarasvæði?
Bæjarráð Fjarðabyggðar fól bæjarstjóra að fá fund með NTÍ þar sem ráðið taldi þörf á frekari útskýringum. Stefnt er að því að fundurinn fari fram síðar í þessum mánuði.
Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri, segir þörf á að fá betur á hreint umfang ábyrgðar NTÍ. Meðal ósvaraðra spurninga er hvort lögin gildi afturvirkt, það er hvort stærra hættusvæði eftir nýtt áhættumat þýði lækkun bóta.
Samkvæmt lögum bætir NTÍ tjón sem verður í eldgosum, jarðskjálftum, skriðum, snjóflóðum og vatnsflóðum. „Við þurfum að vita hvort þessi aðvörun NTÍ eigi bara við um vatnsflóð eða aðrar hættur. Í Fjarðabyggð eru byggðakjarnar á þekktum hættusvæðum en hætturnar eru um allt land. Við getum spurt okkur hvað þetta þýðir fyrir Grindavík. Hver er staðan ef þar verður byggt upp aftur og gert við hús en síðan gerist eitthvað aftur?“
Umsögn verður að standa
Í bréfi NTÍ er sveitarfélögum uppálagt að hafa samband við sérhæfð stjórnvöld við skipulagsákvarðanir, svo sem Veðurstofuna. Það þýðir þó ekki að öll hætta sé úr sögunni. Nýreist er fjölbýlishús við Sólbakka í Neskaupstað þar sem hluti þess fór inn á hættusvæði B.
Hluti hússins var sérstaklega styrktur vegna þessa en Jóna Árný bendir á að þar hafi verið unnið eftir samþykktu skipulagi sem fór í gegn eftir umsögn Veðurstofunnar. „Við þurfum að vita hvert ferlið á að vera og hvaða stjórnvöld koma með ábendingarnar. Það er erfitt ef þau koma síðan einhverjum árum síðar með þau skilaboð að þau hefðu kannski átt að segja eitthvað annað fyrr.“
Eins þarf að skýra hvort ábyrgðin breytist þegar byggðar hafa verið varnir á hættusvæðum, líkt og gert hefur verið víða í Fjarðabyggð. Tæknilega séð gera sveitarfélögin það, oftast með stuðningi ríkisins í gegnum Ofanflóðasjóð. „Í Neskaupstað féll snjóflóð á hús fyrir tveimur árum. Þar er verið að byggja varnargarð og með því teljum við okkur hafa gripið til varna. En hver væri staðan gagnvart tryggingunni ef garðurinn væri ekki kominn og tjón yrði?“