Nauðsynlegt að vita lögheimilið til að kjósa í heimastjórn

Kjósendur í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi þurfa að vita nafn og lögheimili þess einstaklings sem þeir hyggjast kjósa í heimastjórn á sínu svæði. Tæknilega séð eru allir sem eru kjörgengir í framboð en sextán einstaklingar hafa lýst sig reiðubúna til að starfa í heimastjórnunum fjórum.

„Þessi kosning fer fram á sama hátt og til sveitarstjórar. Þú ferð inn í kjördeild þar sem merkt er í kjörskrá þar sem þér er afhentur atkvæðaseðill.

Það sem er frábrugðið við hann er að þar þarftu að skrifa nafn og lögheimili þess sem þú kýst, áður en þú brýtur seðilinn saman og setur í kjörkassa,“ segir Bjarni G. Björgvinsson, formaður yfirkjörstjórnar í sveitarfélaginu.

Tvö herbergi á stærri stöðunum

Íbúar í nýja sveitarfélaginu ganga að kjörborðinu á laugardag og kjósa sveitarstjórnir og heimastjórnir. Þeir geta valið hvort þeir kjósi í báðum kosningum, bara annarri eða alls ekki. Hver kjósandi kýs aðeins í einni í einu, þannig að þegar hann hefur lokið við að greiða atkvæði í annarri snýr hann sér aftur til kjörstjórnar og fær þá afhentan seðil fyrir hina auk þess sem merkt er við hann í viðkomandi kjörskrá.

Á Djúpavogi og Borgarfirði eru aðeins ein kjördeild og verða kosningarnar báðar þar í sama rýminu. Á Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði eru tvær kjördeildi og þar munu kjósendur fara á milli herbergja til að taka þátt í heimastjórnarkosningunum.

Sextán gefið kost á sér

Heimastjórnirnar verða fjórar talsins, ein fyrir hvert núverandi sveitarfélaga. Í þeim munu sitja þrír fulltrúar, einn skipaður af sveitarstjórn en tveir kosnir af íbúum og tveir til vara. Hver kjósandi kýs þó aðeins einn einstakling.

Tæknilega séð eru allir þeir sem eru kjörgengir í kosningunum í kjöri og samkvæmt reglum um getur enginn beðist undan kjör, nema hann hafi áður gegnt embættinu og þá í eins langan tíma og hann gerði það. Því getur enginn beðist undan kjöri nú.

Það einfaldar þó valið og talninguna að sextán einstaklingar hafa lýst yfir áhuga sínum á að starfa í heimastjórnunum. „Þú getur kosið hvern sem er á kjörskrá en það hafa komið aðilar sem gefa sig fram til starfa. Það eru vísbendingar um hverjir vilja vinna í þessum heimastjórnum,“ útskýrir Bjarni.

„Það auðveldar okkur væntanlega talninguna að þeir hafi boðið sig fram. Það minnkar verulega þann fjölda sem annars fengi atkvæði ef enginn vissi hverjir vildu vinna þarna,“ bætir Bjarni við.

Hægt er að fá kynna kynningar á þeim sem hafa boðið sig fram til heimastjórna á vefum svausturland.is. Þar eru lögheimili þeirra skráð en þau er annars að finna í þjóðskrá í gegnum netbanka. Þá geta kjósendur flett upp í hvaða kjördeild þeir eru skráðir í gegnum skra.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.