„Netið sagði mér að Ísland væri öruggasta land í heimi“
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. sep 2025 17:24 • Uppfært 24. sep 2025 17:24
Hemell Vega er fæddur í Kólumbíu en búsettur á Reyðarfirði. Hann var á meðal þeirra fimmtíu einstaklinga sem Alþingi veitti ríkisborgararétt í júlí. Ár er síðan Hemell kom til Íslands og óskaði eftir vernd vegna ógnana sem hann sætti sem samkynhneigður karlmaður í fæðingarlandi sínu.
„Ég kom hingað í maí í fyrra í leit að betra lífi því ég þjáðist í Kólumbíu. Ég bjó við hótanir því ég er hommi. Eins hótuðu glæpagengi litla fyrirtækinu sem mamma mín rekur. Ég gat ekki lifað öruggu lífi sem opinberlega samkynhneigður maður. Ég hef til dæmis verið barinn og meiddur af fólki sem er illa við samkynhneigða.
Ég fór að leita að öruggasta landi heims og Ísland er í þeirra hópi. Internetið sagði mér að það væri númer eitt. En svo las ég líka mikið af sögum um víkingana þegar ég var lítill og það vakti hjá mér áhuga á landinu, fyrir utan að það væri fallegt með fjörðum og fjöllum“ segir Hemell, sem ber nafn sitt fram eins og Emil á íslensku.
Fljótur að taka ákvörðunina
Þegar Hemell hafði tekið ákvörðun um að nóg væri komið í Kólumbíu hafði hann hraðar hendur. Hann horfði fyrst til Danmerkur en þegar Ísland kom upp í leitarvélinni leitaði hann aðeins meira og pantaði sér svo flug. Hann var síðan í nokkra daga hjá móður sinni til að kveðja hana.
Hemell flaug í gegnum Holland og Spán til Keflavíkurflugvallar þar sem hann lagði fram beiðni um alþjóðlega vernd við komuna. „Landamæraverðirnir voru vingjarnlegir við mig en ég var mjög stressaður því þetta var algjörlega nýtt fyrir mér. Það er ekki auðveld ákvörðun að sækja um alþjóðlega vernd.“
Verndarferlið er ekki einfalt. Hemell lagði fram gögn máli sínu til stuðnings um að hann sætti ofsóknum í Kólumbíu, afrit af hótunum og fleiri skjöl. Niðurstaða Útlendingastofnunar var engu að síður að Kólumbía væri öruggt land og hafnaði í september beiðni Hemells um vernd.
Fylgdist með atkvæðagreiðslunni í beinni
Hemell gafst þó ekki upp, heldur áfrýjaði ákvörðuninni til kærunefndar útlendingamála. Niðurstaða hennar liggur ekki fyrir enda er ekki lengur þörf á henni. Síðla vetrar ákvað Hemell að sækja um íslenskan ríkisborgararétt. Hann hafði þá gifst manni sínum, Haraldi Líndal Haraldssyni, og var fluttur til hans austur á Reyðarfjörð.
Hemell útskýrir að hann hafi þurft að fylgja málinu eftir, útskýra stöðu sína fyrir þingmönnum sem töluðu máli hans. Fólk í þeirra nærumhverfi, eins og Ragnar Sigurðsson, Jóna Árný Þórðardóttir og Alma Sigurbjörnsdóttir hjá Fjarðabyggð og tengdafaðirinn Haraldur Líndal Haraldsson, lögðu líka sín lóð á vogarskálarnar. „Það komu líka fleiri að og við kunnum öllu þessu fólki okkar bestu þakkir.“
Þann 14. júlí, daginn sem Alþingi fór í sumarfrí, var Hemell á meðal þeirra 50 sem Alþingi veitti ríkisborgarrétt með lögum. „Auðvitað óttaðist ég alltaf að vera hafnað. En þetta er búið að vera ótrúlegt. Ég kom hingað í leit að vernd og nú er ég íslenskur ríkisborgari. Mér finnst ég vera ótrúlega heppinn.“
Hann sat heima og fylgdist með þingfundinum í beinni sjónvarpsútsendingu. „Ég sat hér með manninum mínum. Tengdafaðir minn gat ekki verið með okkur en hann stytti mér stundirnar með símtölum. Þetta var mjög tilfinningaríkur dagur en um leið einstaklega gleðilegur. Ég gleymi honum aldrei.“
Eignast marga vini á Íslandi
Ríkisborgarrétturinn veitir Hemell ekki bara tækifæri til að vera á Íslandi, heldur líka til að vinna. Hann er menntaður umhverfisfræðingur og hefur komið að verkefnum meðal annars um meðferð á menguðum jarðvegi, gerð umhverfismats, úrgangsstjórnun og fleira. Eftir að hann fékk ríkisborgararéttinn fékk hann vinnu við garðyrkjustörf hjá þjónustu- og framkvæmdamiðstöð Fjarðabyggðar.
Hemell segir að Ísland hafi staðið undir væntingum hans sem öruggt samfélag, ekki bara fyrir samkynhneigða heldur almennt. Hann finnur fyrir samheldni í samfélaginu þar sem fólk kemur saman til að taka þátt í viðburðum.
Hemell vill leggja sitt af mörkum inn í samfélagið og hefur til þess lært íslensku, sem hann er kominn með ágæt tök á eftir stuttan tíma. „Mér líður vel á Reyðarfirði. Ég hef eignast nýja vini sem hafa hjálpað mér við að æfa mig í íslensku. Stuðningur Haraldar og fjölskyldu hans hefur verið ómetanlegur. Þau tóku mér strax opnum örmum og hafa stutt mig heilshugar. Bæði þau og vinir Haraldar hafa hjálpað mér við að aðlagast þannig að þetta er eiginlega sameiginlegt ferli.
Ég er ákveðinn í að þjóna íslensku samfélagi, að leggja mitt til hagkerfisins og að viðhalda þeim gildum sem gera Íslendinga einstaka og aðdáunarverða þjóð. Ég ætla mér að byggja upp öruggt, traust og tilgangsríkt líf hér.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.