Niceair sér möguleika í áætlunarflugi um Egilsstaðaflugvöll

Framkvæmdastjóri norðlenska flugfélagsins Niceair segir félagið skoða vandlega möguleikann á áætlunarflugi um Egilsstaðaflugvöll í framtíðinni. Fyrsta skrefið sé þó vaxandi leiguflug.

„Leiguflugið er alltaf byrjunin. Sú tíðni og eftirspurn leiguflugs sem við sáum frá Akureyri varð til þess að við töldum grundvöll fyrir áætlunarflugi. Ég hef enga ástæðu til annars en ætla að eins verði hér.

Ef við segjum að Norðurlandið hafi verið 10-15 árum á eftir höfuðborgarsvæðinu þá er Austurland kannski fimm árum á eftir Norðurlandi,“ segir framkvæmdastjórinn, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Súlur, vél Niceair, flaug í fyrsta sinn um Egilsstaði fyrir viku þegar hún fór með starfsfólk Loðnuvinnslunnar og fleiri áhugasama til Glasgow í Skotlandi. Niceair hóf starfsemi í byrjun sumars og hefur flogið milli Akureyrar og annars vegar Kaupmannahafar, hins vegar Tenerife.

Þorvaldur Lúðvík segir Austfirðinga hafa tekið vel í flugið, sem og íbúa af öllu Norðurlandi en hann segir markaðssvæðið ná yfir þessa tvo landshluta þar sem búa um 46 þúsund manns. Slíkt sé ekki of lítið fyrir flugfélag því Færeyingar, sem séu litlu færri, haldi upp eigin félagi með fjórum vélum.

Þótt Niceair opni íbúum fjórðunganna dyr út í heim er aðaltilgangurinn samt að flytja erlenda ferðamenn inn til landsins. Þeim hefur fjölgað jafnt og þétt frá upphafi og eru nú um fjórðungur.

„Við vonumst að ferðavilji bæði Austfirðinga sem erlends ferðafólks verði slíkur að það skapist markaður fyrir flug, til dæmis Akureyri-London-Egilsstaðir-London-Akureyri, sem sagt, þar sem flogið er um sama ás erlendis til beggja staða samdægurs. Þetta ræðst fyrst og fremst af því hvernig tekst að markaðssetja áfangastaðinn,“ segir Þorvaldur.

Að auki horfi Niceair til fraktflugs, einkum með vaxandi fiskeldi á Austfjörðum. Þorvaldur segir aðstöðuna á Egilsstöðum ágæta, flugstöðin sjálf sé góð en flugbrautin sé í stysta lagi miðað við fullhlaðna vél.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.