„Niðurgreiðslur til einkafyrirtækis með einokunaraðstöðu aldrei líklegt til árangurs“
Allir tíu oddvitar þeirra flokka sem fram bjóða til Alþingis í Norðausturkjördæmi eru á þeirri skoðun að taka þurfi niðurgreiðslukerfið Loftbrú til endurskoðunar. Annaðhvort gagngerrar endurskoðunar eða útvíkka hugmyndina frekar en raunin er.
Loftbrúin er flugafsláttarkerfi íbúa á landsbyggðinni en allir þeir sem hafa lögheimili fjarri höfuðborginni geta flogið fjórum sinnum árlega innanlands og fengið þá flugleggi niðurgreidda um 40 prósent af hálfu ríkisins. Var kerfið á sínum tíma sett á til að auðvelda íbúum á landsbyggðinni að sækja nauðsynlega þjónustu í höfuðborgina sem ekki er annars í boði án þess að kosta of miklu til.
Flestir fögnuðu framtakinu á sínum tíma en Loftbrúin kom til sögunnar haustið 2020. Síðan þá hafa hins vegar flugfargjöld innanlands hækkað um rúm 50 prósent sem er töluvert umfram 40% niðurgreiðsluna með Loftbrúnni og flugfargjöldin því hlutfallslega dýrari nú en þau voru þegar kerfið var sett á.
Galli á gjöf
Margir oddvitanna töldu hugmyndina hafa verið meingallaða frá upphafi sökum þess að nema í undantekningartilfellum sé Icelandair með einokunaraðstöðu á öllum vinsælustu flugleiðum innanlands.
„Því miður var fyrirséð að þessi aðferð [Loftbrúin] myndi leiða til þess að flugfélögin, eða aðallega flugfélagið, myndu hækka gjöldin,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson úr Miðflokknum. „Það er betra að nálgast þetta með þjónustusamningum og ekki bara við eitt flugfélag heldur má ekki gleyma Húsavík og öðrum byggðum sem hafa orðið dálítið útundan í flugsamgöngum.“
„Loftbrúin er að okkar mati gallað kerfi,“ sagði Gunnar Viðar Þórarinsson fulltrúi Lýðræðisflokksins. „Við viljum ferðastyrki sem eru óháðir ferðamáta og við getum ráðstafað sjálf. Það okkar tilfinning að þegar við fengum þessa Loftbrú þá fannst mörgum að hér hefðu laumast að verðhækkanir. Hver kannast ekki við það að verðið hefur hækkað. Loftbrúin eiginlega dugði ekki til heldur gleyptist allt inn í hækkanirnar.“
Sindri Geir Óskarsson frá Vinstri grænum taldi að lagfæra þyrfti kerfið. „Hvað Loftbrúnna varðar þá þarf að taka kerfið og hugsa upp á nýtt. Nú er komin einhver reynsla á það. Sjálfur er ég búinn með mína flugleggi, börnin mín fjögur eiga alla sína eftir. Það þyrfti að vera hægt að deila þessu einhvern veginn innan fjölskyldu og að setja eitthvert þak því það er klárt að flugfélagið nýtti þetta tækifæri til að okra á landsbyggðinni.“
Undir það tóku bæði Theódór Ingi Ólafsson frá Pírötum og Ingvar Þóroddsson frá Viðreisn: „Loftbrúin var mjög gott skref. Markmiðið var gott en það er gallað að einhverju leyti af því að við erum með fyrirtæki í einokunarstöðu og það gerir það að einhverju leyti að verkum að það ýtir verðinu upp. Við þurfum því að endurskoða þetta í heild sinni og kanna hvort hægt sé að skapa skilyrði fyrir samkeppni.“
Gott skref en meira þarf til
Þrír frambjóðenda voru þó á þeirri skoðun að kerfið væri að virka en það þyrfti að útvíkka til hægðarauka fyrir landsbyggðarfólk.
„Ég hef skrifað ótal greinar í tengslum við Loftbrú, hækkandi flugfargjöld og Reykjavíkurflugvöll,“ sagði Ingibjörg Ísaksen, oddviti Framsóknarflokks. „Við tölum fyrir því varðandi Loftbrúnna að það hafi verið gott og mikilvægt skref en mikilvægt líka að það sé verðlagseftirlit í tengslum við þetta til þess að þetta skili tilætluðum árangri. Við viljum útvíkka Loftbrúnna frekar, það þurfi jafnvel að fjölga leggjum, að hægt verði að flytja á milli fjölskyldumeðlima og einnig að þetta nýtist í tómstunda- og íþróttastarf.“
„Loftbrúin var ágætt byrjunarskref en við þurfum að þróa þetta áfram og koma í veg fyrir að þetta leki út í verðlagið,“ vildi Logi Einarsson Samfylkingunni meina. „Við í Samfylkingunni höfum lagt til að gerð verði úttekt á innanlandsflugi og það metið með tilliti til byggðasjónarmiða, kostnaðar, hagkvæmni og fleiri þátta. Það alveg öruggt má að við þurfum að styðja við ferðir fólks utan af landi í nauðsynlega þjónustu sem er jafnvel lögbundin og staðsett á höfuðborgarsvæðinu.
Ríkið á að sjá um innanlandsflugið
Þorsteinn Bergsson úr Sósíalistaflokknum taldi hugmyndina hafa verið misheppnaða frá grunni. „Niðurgreiðslur til einkafyrirtækis sem hefur einokunaraðstöðu eins og í fluginu hér var aldrei líklegt til að skila neinum árangri. Það eina sem gerðist var að miðaverðið hækkaði og þetta fyrirtæki gerði allt sem það gat til að stinga þessari niðurgreiðslu af almannafé í sinn eigin vasa. Þetta verður ekki lagfært á þessu formi nema að ríkið taki að sér rekstur innanlandsflugsins enda er það löngu tímabært.“
Þessari ríkisflugfélagshugmynd mótmælti Jens Garðar Helgason úr Sjálfstæðisflokki harðlega. „Við þurfum að fjölga leggjunum. Þá þarf að vera hægt að nýta Loftbrú milli þeirra sem búa á sama lögheimili. Við þurfum að stórbæta í fyrir íþróttafélögin því þetta er stór kostnaður okkur hér. Lausnin er alls ekki að við séum að fara að láta opinbera starfsmenn fljúga með okkur í einhverju ríkisflugfélagi og Guð forði okkur frá því. En ég held að það sé einhver ástæða fyrir að það er engin samkeppni á þessum markaði. Við sjáum nú hvernig flugfélögunum okkar gengur að berjast á markaði við erlend flugfélög. Þetta er erfiður markaður þannig að við skulum tala varlega um hvernig við tölum um að hér sé verið að arðræna fólk.“
Hér að neðan má sjá framboðsfundinn í gærkvöldi í heild sinni: