Orkumálinn 2024

Njáll Trausti fylgjandi áframhaldandi stjórnarsamstarfi

Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi, segist nokkuð sáttur með niðurstöðu Alþingiskosninganna en hefði þó viljað sjá flokkinn bæta við sig. Hann vill lítið tjá sig um hvort hann fari fram á ráðherrastól ef Sjálfstæðisflokkurinn fer í ríkisstjórn en segist styðja áframhaldandi samstarf með Framsókn og Vinstri grænum. Hann segir þó að það verði ekki auðvelt að mynda þá ríkisstjórn.


Sjálfstæðisflokkurinn missti um 2% af fylgi sínu í kjördæminu frá 2017 en hann hlaut 18,5% atkvæða í ár. Hann heldur þó báðum þingsætum sínum.„Þetta er status quo hjá okkur. Við höldum þingsætum okkar en auðvitað vildum við bæta við fylgið. Ég held að fólk í kjördæminu hafi verið að kjósa um stöðugleika og að haldið verði áfram á sömu braut,“ segir Njáll um niðurstöðuna.


Njáll segir að kosningabaráttan hafi verið fín en hann telur að umræðan um málefnin hefði mátt vera stærri hluti hennar. „Mér fannst skorta dýpri umræðu um málefnin í kosningabaráttunni í ár. Framboðin komu aðeins fram saman á tveimur framboðsfundum í kjördæminu, hjá Austurfrétt og á RÚV. Maður saknaði þess svolítið en slíkir fundir eru snúnir þegar það eru tíu framboð. Ég hefði viljað að við hefðum rætt meira um atvinnulífið, heilbrigðismál, samgöngur og slíkt,“ segir Njáll um kosningabaráttuna. „Kosningabaráttan var skemmtileg, það var mikið um ný andlit og ungt fólk í efstu tíu sætum okkar lista. Það tók tíma að kynna alla í stóru kjördæmi en ég er ánægður með hvernig til tókst hjá okkur.“


Stjórnarflokkarnir fengu sjö af tíu þingsætum kjördæmisins og töluverðar líkur eru á áframhaldandi samstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna. Njáll Trausti segist hafa verið fylgjandi því þegar þessir flokkar settust saman í ríkisstjórn og telur réttast að flokkarnir reyni að mynda ríkisstjórn aftur. „Það gæti tekið langan tíma að mynda ríkisstjórn og það verður ekki auðvelt,“ segir Njáll.


Kristján Þór Júlíusson var oddviti Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmi á síðasta kjörtímabili og var einnig sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Aðspurður segist Njáll lítið vilja tjá sig um hvort hann geri kröfu á ráðherraembætti ef Sjálfstæðisflokkurinn nær að mynda ríkisstjórn. „Ég vil ekki tjá mig um það en ég er oddviti kjördæmisins og vil hafa áhrif,“ segir Njáll að endingu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.