Skip to main content

Nóg að hafa fyrir rjúpnaveiðimenn austanlands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. des 2024 13:41Uppfært 02. des 2024 13:44

Tuttugu dagar lifa enn af yfirstandandi rjúpnaveiðitímabili austanlands en samkvæmt veiðimönnum mörgum hefur veiði gengið mjög vel víðast hvar hingað til og nóg sést af fugli.

Einn þeirra sem staðfesta það er Sveinn Ingimarsson úr Fljótsdal, sem þrátt fyrir að hafa dregið mjög úr veiðum sínum síðustu árin og láti sér nú nokkrar í jólamatinn nægja, segir nóg af fugli þó vissulega megi sjá nokkrar breytingar á hegðun rjúpunnar nú síðari ár. Þar fyrst og fremst að þær virðast í auknum mæli koma sér fyrir í skógum á láglendi en leiti minna upp á heiðar og fjöll.

„Það er mikið af fugli á svæðinu en munurinn kannski sá frá fyrri tíð að hún er mikið að hópa sig saman í skógunum og væntanlega að hluta til út af veðrinu. Það ekki langt síðan ég var að vinna upp á heiði að vinnu og sá hvergi spor eftir fugla en aftur á móti þegar ekið var gegnum skóginn á leið upp á fjall þá var auðvelt að sjá fjölda spora þeirra um allt. Það er ábyggilega eitthvað af þeim á heiðunum en það er búið að vera svo hvasst undanfarið að þeir væntanlega að leita sér skjóls meðal trjánna. Svo er auðvitað töluvert af fugli niður í fjörðunum og á Héraði. Veiðin almennt verið mjög góð þá daga sem viðrar til veiða. Flestir tala um að hafa séð mikið af fugli.“

Austurland er nokkuð sér á parti hvað rjúpaveiði varðar þetta árið því annars staðar í landinu lauk rjúpnaveiðitímabilinu um miðjan síðasta mánuð. Það einungis í austfirska fjórðungnum sem leyfilegt er að veiða allt fram til 20. desember. Það mikil breyting frá því sem áður var sem helgast af því að Umhverfisstofnun beitir nú nýju líkani við ákvarðanir sínar um veiðitíma sem tekur mið af árlegum rjúpnatalningum á vorin og sumrin.