Nokkuð neikvæð áhrif af lóni Geitdalsárvirkjunar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. jan 2025 14:12 • Uppfært 30. jan 2025 14:45
Ásýnd á óbyggðum víðernum skaðast með tilkomu miðlunarlóns Geitdalsárvirkjunar og öðrum framkvæmdum vegna hennar. Samfélagsleg áhrif eru talin jákvæð, einkum með bættu orkuöryggi.
Þetta kemur fram í umhverfismatsskýrslu sem virkjunaraðilinn Arctic Hydro hefur birt og unnin fyrir hans hönd af verkfræðistofunni Cowi. Framkvæmdin verður kynnt nánar með opnu húsi á Egilsstöðum í dag.
Virkjunin gengur út á að virkja Geitdalsá vestan Hesteyrarfjalls. Þar með yrði til lón sem yrði mest 36 hektarar að stærð og í allt að 450 metra hæð yfir sjávarmáli. Til þess þyrfti að gera 40 metra háa og 360 metra langa stíflu.
Vatnið yrði síðan leitt tæplega 7 km leið niður í stöðvarhús. Með því næst 250 metra fallhæð og allt að 9,9MW virkjun sem framleitt getur 56 GWst á ári af rafmagni. Tengt yrði við spennuvirki við Hryggstekk með jarðstreng.
Að stöðvarhúsinu þyrfti að gera 6 km veg og þaðan annan upp að lóninu. Framkvæmdasvæðið er talið vera 530 hektarar, þar af raskist 120 þeirra varanlega.
Verulega neikvæð áhrif á fornleifar og vatnalíf
Umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eru almennt metin á sjö stiga kvarða, sem ná frá verulega jákvæðum niður í verulegan neikvæðan. Nokkuð er vægari dómur en talsvert. Þá bætist við að óvissa getur verið um ákveðna þætti.
Í tveimur flokkum eru áhrif metin verulega neikvæð. Annars vegar er um að ræða röskun fornleifa, sem snýst aðallega um röskun á tóft sem er um 2 km fyrir innan bæinn í Geitdal. Mannvirkið er þó vera frá því eftir 1800. Á móti er í landi Hryggstekks hleðsla sem gæti verið kuml, gröf frá því 800-1100.
Hins vegar eru áhrif á vatnalíf talin verulega neikvæð milli lóns og stöðvarhúss, enda dregur verulega úr vatnsrennsli þar. Á móti kemur að fiskgengd er þar takmörkuð. Áhrif á fossa eru metin nokkuð neikvæð. Um þá segir að í ánni séu litlir fossar sem hafi takmarkað aðdráttarafl en í hliðarám og ofar í vatnakerfinu séu fallegri fossar. Áhrif neðan stöðvarhúss eru óveruleg enda er vatninu miðlað þar út aftur. Heildaráhrif á vatnafar á svæðinu eru talin óveruleg eða nokkuð neikvæð.
Lónið raskar ósnortnum víðernum
Tilfinnanlegustu umhverfisáhrifin yrðu trúlega ásýnd á landslag með röskum óbyggðra víðerna. Áhrif á landslag við stíflusvæði eru talin talsvert neikvæð, þar eru óbyggð víðerni og votlendissvæði með hátt verndargildi. Stíflumannvirkin eiga hins vegar að vera takmarkað sýnileg, eða mest í um 1 km radíuss frá lóninu.
Stöðvarhúsið verður upp í fjallshlíð og því sýnilegt um nánast allan Skriðdal. Áhrif þessu eru talin nokkuð neikvæð því það breyti ásýnd ósnortinna hlíða. Á móti sjáist það takmarkað það ekki ofan af fjöllum og hafi því takmörkuð áhrif á óbyggð víðerni.
Raska vernduðu votlendi
Reiknað er með að framkvæmdirnar raski um 2 hekturum lands sem nýtur verndað og áhrifin því metin nokkuð eða talsvert neikvæð. Reynt verður að leggja svokallaða fljótandi vegi til að draga úr áhrifum.
Áhrif á vistgerðir og æðplöntur eru metin nokkuð neikvæð og sögð í ósamræmi við verndarmarkmið náttúruverndarlaga um viðhald fjölbreytni vistkerfa. Á móti draga vegirnir úr því að bændur fari um gróði land á fjórhjólum. Áhrif á bakkagróður og skóglendi eru metin óveruleg en nokkuð af landrofi lónsins. Ekkert þar óttast að fok fínefna úr lóninu kæfi gróður í nágrenninu. Áhrif á jarðfræði og jarðmyndanir eru talin nokkuð neikvæð.
Mikilvæg burðarsvæði hreindýra
Því er haldið fram að virkjunin hafi nokkuð jákvæð áhrif á loftslag. Það er háð því að virkjunin stuðli að orkuskiptum, að rafmagn úr henni komi í stað brennslu jarðefnaeldsneytis. Hins vegar verður talsverð losun frá lóninu vegna þess gróðurlendis sem fer undir vatnið.
Athuganir benda til þess að í nágrenni Geitdals séu mikilvæg burðarsvæði hreindýra. Þess vegna er lagt til að umferð um vegslóðana verði takmörkuð á þeim tíma. Arctic Hydro er hins vegar ekki til í að gefa eftir burðartímann í maí á framkvæmdatímanum því mikilvægt sé að nýta sumarið sem best. Áhrifin á hreindýrin eru því talin nokkuð neikvæð eða óviss. Áhrif á fugla eru almennt alin neikvæð vegna röskunar búsetusvæða þótt umhverfi steindepils geti batnað.
Eflir raforkuöryggi á Austurlandi
Bestu einkunnina fær virkjunin fyrir að treysta raforkuöryggi, enda er hún til þess gerð. Þau eru talin talsvert jákvæð auk þess sem framboð raforku opnu á ýmsa möguleika. Bætt aðgengi upp Geitdal er talið kostur, fyrir ferðafólk- og veiðimenn, þótt takmarka verði það á varp- og burðartíma. Bent er á að ferðamenn sækist almennt eftir ósnortnum víðernum en séu misviðkvæmir fyrir mannvirkjum. Almennt sé lítil umferð ferðafólks á svæðinu en þekkt sé að virkjunarframkvæmdir geti aukið áhuga á svæðum.
Áætlað er að allt að 80 manns starfi við byggingu virkjunarinnar þegar mest lætur og hún útheimti 101 ársverk. Áætlaður framkvæmdatími er 34 mánuðir eða tæp þrjú ár, með gerð útboðsgagna og útboði þar sem virkjunin hefur verið gangsett.
Kynningarfundur um skýrsluna í dag
Í umhverfismatsskýrslunni er fjallað um aðrar hugsanlegar útfærslur á virkjuninni, til dæmis að hafa stöðvarhúsið á öðrum stað. Þar kemur fram að til skoðunar hafi verið að stífla fleiri hliðarár eða veita inn í virkjunina. Það hafi hins vegar ekki reynst hagkvæmt. Því sé sá kostur sem veldur minnstu raski jafnframt sá hagkvæmasti.
Komið er inn á áhættuna af stíflurofi. Þau eru talin takmörkuð því lítið vatns sé í lóninu. Engin byggð er talin í hættu heldur sé brúin yfir Geitdalsá eina mannvirkið sem geti eyðilagst. Ekki er talið að neins konar náttúruvá ógni mannvirkjunum.
Arctic Hydro stendur í dag fyrir opnum kynningarfundi um framkvæmdina, í Samfélagssmiðjunni (gamla Blómabæ) á Egilsstöðum milli klukkan 16-19. Frestur til að gera athugasemdir við umhverfismatið hjá Skipulagsstofnun er til 22. febrúar. Gert er ráð fyrir að Skipulagsstofnun gefi út álit sitt á matinu innan sjö vikna eftir að athugasemdafresturinn rennur út, eða um páska.
Af áhrifasvæði Geitdalsárvirkjunar. Mynd: Skarphéðinn Þórisson