Ný uppfærð rýmingarkort vegna ofanflóðahættu austanlands staðfest
Ný og uppfærð rýmingarkort vegna ofanflóðahættu á Seyðisfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Neskaupstað voru staðfest og opinberuð formlega fyrr í dag. Nýju kortin taka nú meðal annars mið af uppkomnum snjóflóðavörnum.
Ofanflóðasérfræðingar Veðurstofu Íslands hafa í samvinnu við Almannavarnarnefnd Austurlands unnið að uppfærslu kortanna fyrir þéttbýli í hættu í Múlaþingi og Fjarðabyggð en á þeim er tekið tillit til snjó- og krapaflóða og skriðna hvers konar.
Á þeim kortum er einnig ekki aðeins tekið tillit til breyttra aðstæðna vegna þeirra snjóflóðavarna sem búið er að koma fyrir á stöku stöðum heldur og búið að þysja inn og reikna út hugsanleg áhrif stærri bygginga á rennsli flóða ef til þeirra kemur.
Sömuleiðis hefur öll framsetning kortanna verið bætt og einfölduð frá því sem áður var og nú getur hver og einn íbúi innan tíðar grandskoðað rýmingarreiti í sínu nærumhverfi á kortasjám sveitarfélaganna tveggja á netinu.
Nýju kortin voru staðfest með formlegum hætti í morgun og það gerði sitjandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson í viðurvist ofanflóðafræðinga og forstjóra Veðurstofunnar. Almannavarnarnefnd Austurlands hyggst kynna nýju kortin frekar fyrir íbúum í sveitarfélögunum tveimur í byrjun næsta mánaðar.
Kortin staðfest af ráðherra fyrr í dag en með honum á myndinni eru Hildigunnur H.H Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofunnar, og Tómas Jóhannesson, ofanflóðafræðingur. Mynd Veðurstofa Íslands