Nýi Börkur fer á kolmunnaveiðar fyrir helgi

Áhöfnin á nýja Berki er önnum kafin við að gera skipið klárt fyrir fyrstu veiðiferðina. Ætlunin er að Börkur fari á kolmunnaveiðar fyrir helgina.

Þetta kemur fram á vefsíðu Síldarvinnslunnar þar sem spjallað er við skipstjórana Hálfdan Hálfdanarson og Hjörvar Hjálmarsson. Hjá þeim kemur fram að stefnt væri að því að skipið héldi til kolmunnaveiða fyrir helgina.

Hálfdan telur sennilegt að veitt verði austur af Færeyjum en nefnir þó að Beitir NK hefði farið út á mánudaginn og verið að kanna möguleika á kolmunnaveiði innan íslenskrar lögsögu.

„Við tókum trollin um borð í gær og nú er verið að ganga frá ýmsu sem tengist veiðarfærunum og ýmsum búnaði. Það er að mörgu að hyggja. Venjulega eru átta um borð þegar veitt er með trolli en á skipinu er tvöföld áhöfn og í þennan fyrsta túr fara allir, þannig að gera má ráð fyrir sextán um borð. Megintilgangurinn með fyrstu veiðiferðinni er að kanna hvort allt virki og læra á skipið. Það er mikilvægt að allir læri á skipið strax. Ég er viss um að allt á eftir að ganga eins og í sögu. Það hefur allavega allt gengið frábærlega vel hjá systurskipinu Vilhelm Þorsteinssyni EA,“ segir Hálfdan.

Þeir Hálfdan og Hjörvar segja að það sé virkilega spennandi að hefja veiðar á þessu glæsilega skipi. Segjast þeir gera sér vonir um að lenda í einhverju fiskiríi en megintilgangurinn í fyrstu veiðiferð sé þó sá að kanna hvernig allt virkar um borð og þjálfa áhöfn.

Mynd: Hjörvar Hjálmarsson og Hálfdan Hálfdanarson skipstjórar í brúnni á Berki. Mynd Guðlaugur B. Birgisson/SVN

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.