Vilja nýta sérstaka heimild til að halda Axarvegi opnum næstu mánuði
Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings hefur fengið það verkefni frá sveitarstjórn að láta kanna hvort og þá hvernig sé hægt að nýta sérstaka heimild um helmingakostnað vegna vetrarþjónustu á vegum til að halda Axarvegi opnum eins mikið og kostur er næstu mánuðina.
Tillaga um ofangreint kom frá heimastjórn Djúpavogs í síðustu viku og var tekin fyrir á fyrsta fundi sveitarstjórnar Múlaþings á nýju ári í gær.
Sökum tiltölulega góðs tíðafars það sem af er vetri hefur mestmegnis tekist að halda Axarvegi opnum og eftir tímabundna lokun fyrir skömmu hefur fjallvegurinn verið opnaður á ný í kjölfar hlýindakafla austanlands síðustu dægrin.
Heimastjórn Djúpavogs var í mun að frá og með 5. janúar til 20. mars yrði ítrekuð krafa um að Axarvegi yrði haldið opnum það tímabil með fyrrgreindri heimild um helmingakostnað. Vegagerðinni er samkvæmt svokallaðri G-reglu um vetrarþjónustu ekki skylt að halda tilteknum vegum opnum eða í þjónustu á því tímabili en sveitarfélög geta í tilfellum óskað tímabundið eftir meiri þjónustu með því að skipta kostnaði. Það er þó Vegagerðin sem hefur úrslitavald um hvort slíkt sé fýsilegt.
Lét heimastjórn Djúpavogs bóka í síðustu viku að aldeilis óásættanlegt væri að samgönguyfirvöld létu dagatöl stjórna því hvenær vegir væru opnaðir og hvenær ekki. Brýn nauðsyn væri á að endurskoða það fyrirkomulag og halda vegum opnum eins og hægt væri þegar tíðarfar væri almennt gott eins og verið hefur að mestu það sem af er þessum vetri. Kostnaður við slíkt sé minniháttar en áhrifin af opnun meiriháttar.
Við þetta má bæta að Axarvegur er nú opinn og fær nánast öllum bifreiðum þó reyndar varað sé við þæfingi á köflum.