Nýtt lag um faðmlög frá Guðmundi R.
Norðfirski söngvarinn Guðmundur R. hefur gefið út nýtt lag sem talar beint inn í okkar samtíma. Lagið heitir Svona er lífið og er fáanlegt á helstu streymisveitum s.s. Spotify og Apple music.„Við lifum á sögulegum tímum og flestir tónlistarmenn finna hjá sér þörf til að túlka ástandið með einhverjum hætti,“ segir Guðmundur í tilkynningu og bætir við: „Þetta lag fjallar um faðmlög, hvað við söknum þeirra og auðvitað vonum við að allt verði eins og það var.“
Lagið er kraftmikið, drifið áfram af frábærum bassaleik Guðna Finnssonar sem margir þekkja úr Dr. Spock, Ensími, Pöllapönki, Mugison svo einhverjir séu nefndir. Guðmundur og Guðni eru bekkjarbræður frá Neskaupstað og æskufélagar en þetta er fyrsta lagið sem þeir vinna saman.
Upptökustjóri lagsins er Jón Ólafsson, oft kenndur við Nýdönsk, sem áður hefur gert tvær plötur með Guðmundi.
Guðmundur hlaut fyrr á þessu ári heiðursverðlaun Tónlistarmiðstöðvar Austurlands og tónlistarhátíðarinnar Köld en ferill Guðmundar spannar nú 37 ár en það var árið 1987 er æskusveit Guðmundar SúEllen gaf út sína fyrstu plötu.