Nýtt Marelkerfi hjá Búlandstindi getur afkastað 20 kössum á mínútu

Marel hefur sett upp nýtt vinnslukerfi hjá Búlandstindi á Djúpavogi. Um mjög öflugt kerfi er að ræða sem getur afkastað allt að 20 kössum af laxafurðum á mínútu á tveimur vinnslulínum.

„Það var mjög ánægjulegt að vinna með Búlandstindi að því að bæta vinnsluferlið og auka afköst í þeirra glæsilegu vinnslu,“ segir Valdimar Ómarsson, yfirmaður vöruþróunar hjá Fiskiðnaðarsetri Marel

„Allt vinnsluferlið er nú mun tæknivæddara en áður auk þess sem gæði og rekjanleiki eru tryggð. Búlandstindur er með metnaðarfull áform og okkur hlakkar til áframhaldandi samstarfs með þeim“

Kerfið sem Marel afhenti Búlandstindi samanstendur af fiskinnmötun og gæðaskoðun, sjálfvirkum heilfisk flokkara og kassakerfi sem heldur utan um kassana sem fiskurinn er settur í.

Í yfirliti frá Marel um kerfið segir m.a. að laxinn er fluttur frá kælitank að innmötunnarstöð með gæðamati. Hver fiskur fær gæðamerki sem fylgir honum í gegnum allt kerfið. Laxinn fer frá innmötunnarstöðinni yfir að vigtareiningu, þar sem þyngdin bætist við gæðamerkið. Laxinn er svo flokkaður í sjálfvirkum pökkunarflokkara, eftir gæðum og þyngd og búnir eru til skammtar.

„Pökkunarflokkarinn setur skammtinum í kassa sem einnig hefur verið vigtaður inn í kerfið. Kassinn fær límmiða með öllum upplýsingum um vöruna. Að lokum fær hver kassi vigtaðan ísskammt ofan í kassann, áður en lokið er sett á hann,“ segir í yfirlitinu.

„Nýja kerfið getur skilað af sér allt að 20 kössum á mínútu á tveimur vinnslulínum það er tíu kössum á hvorri. Þetta eru mun meiri afköst en voru áður auk þess sem rekstaröryggi er nú meira þar sem hægt er að keyra eina línu þó hin stöðvist.“

Þá er nýi pökkunarflokkarinn útbúin þannig að hann getur vaxið með Búlandstindi, við frekari stækkun.

Mynd: Marel.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.