Orkumálinn 2024

Einar Brynjólfsson: Óbreytt ástand bar sigur úr býtum

Einar Brynjólfsson, oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi, náði ekki kjöri á Alþing um helgina. Einar mældist inni sem kjördæmakjörinn þingmaður allt frá því í sumar og í síðustu viku var fátt sem benti til annars en hann næði inn á þing. Hann var því að vonum vonsvikinn þegar Austurfrétt heyrði í honum í dag en hann gerði sér miklar vonir um að ná kjöri. Hann telur líklegt að hann bjóði sig ekki aftur fram til Alþingis.


Einar segir að ákveðin leiðrétting verði oft á fylgi flokkanna á kjördag þar sem margir lýsi yfir stuðningi við flokka sem eru róttækari í skoðanakönnunum en þegar á hólminn er komið kjósi fólk það sem það þekkir. Hann segir að þeir flokkar sem standa vörð um kerfið hafi verið sigurvegarar kosninganna. „Niðurstaðan er sú að engin breyting mun verða á fiskstjórnunarkerfinu, strandveiði verður ekki frjáls og stjórnarskrármálið kemst ekki á dagskrá. Verst þykir mér að tveir stærstu flokkar kosninganna fá algjöra falleinkunn í umhverfismálum,“ segir Einar og vísar þar til Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins og þeirrar greiningar sem Ungir umhverfissinnar gerðu á stefnu flokkanna. „Óbreytt ástand bar sigur úr býtum, ekki bara í Norðausturkjördæmi heldur á landsvísu.“


Einar segir að endanleg niðurstaða kosninganna liggi ekki enn fyrir. „Það eru ekki öll kurl komin til grafar í þessum kosningum. Ég tel þó að það muni ekki hafa áhrif á mig þó ég hafi verið jöfnunarmaður kjördæmisins um tíma í talningunni,“ segir Einar og vísar til þeirrar óvissu sem nú er uppi um talninguna í Norðvestur- og Suðurkjördæmi.


Alþingiskosningarnar í ár voru þær þriðju sem Einar hefur tekið þátt í. Hann komst á Alþingi árið 2016 en eftir að ríkisstjórnin sprakk árið 2017 og boða þurfti til nýrra kosninga féll hann af þingi. Eftir vonbrigðin í ár telur Einar að ólíklegt sé að hann haldi áfram. „Ég hef svo sem ekki velt því fyrir mér. Ég get þó ekki lokað augunum fyrir því að þegar fólk kýs þá horfir bæði til málefnanna og þeirra frambjóðenda sem það er að kjósa. Ég verð að horfast í augu við það,“ segir Einar og telur líklegast að hann segi staðar numið í stjórnmálum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.