Ofurölvi ökumaður kallaður fyrir dóm
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. sep 2025 10:46 • Uppfært 25. sep 2025 10:46
Lögreglustjórinn á Austurlandi hefur nýverið birt áskoranir til þriggja erlendra ríkisborgara um að mæta fyrir dóm eftir að hafa verið teknir ölvaðir undir stýri á svæðinu árið 2023. Einn þeirra var svo drukkinn að hann hefði varla átt að geta staðið.
Ákærur gegn mönnunum þremur eru birtar í Lögbirtingablaðinu. Það er gert þegar ekki næst að birta þær eftir hefðbundnum leiðum. Þar er skorað á mennina að mæta fyrir dóm, hlýða á ákæru, halda uppi vörnum og sæta dómi. Mæti menn ekki telst það ígildi játningar.
Alvarlegasta brotið framdi Þjóðverji um sjötugt sem var stöðvaður á ferð við Ferjubakka á Seyðisfirði seint í október 2023. Vínandamagn í blóði hans mældist 3,16 prómill.
Samkvæmt skilgreiningum leiðir slíkt áfengismagn til þess að fólk á erfitt með að standa, tala og ganga. Sjón brenglast þannig einstaklingur hefur nánast enga stjórn á ökutæki og skapar þannig stórhættu á slysum.
Annar Þjóðverji var tekinn á Seyðisfirði tíu dögum fyrr. Sá mældist með 1,5 prómilli af áfengi í blóði. Það er ríflegt og gerir menn algjörlega óhæfa til aksturs.
Þriðji einstaklingurinn var frá Rúmeníu og var tekinn á rúntinum á Egilsstöðum. Vínandamagn hans í blóði mældist 0,62 prómill.
Samkvæmt umferðarlögum er leyfilegt vínandamagn í blóði við stjórn ökutækis 0,2 prómill. Það var lækkað við breytingu á lögunum fyrir fimm árum. Eftir sem áður er refsing ekki gerð fyrr en vínandamagnið er komið yfir 0,5 prómill.