Ókeypis námskeið í pakistanskri matargerð á Seyðisfirði

„Þegar ég kom til landsins fyrir tíu árum síðan var ekki einu sinni hægt að kaupa turmeric í Bónus. Það er nú sem betur allt að breytast og ég vil taka þátt í þeirri breytingu,“ segir Azfar Karim frá Pakistan, sem ætlar að kenna matargerð frá sínu heimalandi á Seyðisfirði á laugardaginn.


Eins og segir í inngangi hefur Azfar búið á Íslandi í áratug. Hann rekur Orkuskálann á Seyðisfirði með vini sínum, en sjálfur býr hann á Hellu en kemur reglulega austur. Nú vill hann kenna fólki að elda pakistanskan mat og býður upp á námskeið í Orkuskálanum á laugardaginn.

„Við erum alltaf með pakistanskan mat á föstudagskvöldum í Orkuskálanum þar sem yfirleitt koma á bilinu 10-35 manns að borða. Okkur langar að kynna matarmenninguna fyrir enn fleirum og einnig að kenna fólki að elda pakistanskan mat, ég vil að allir borði karrý-mat,“ segir Azfar og hlær.

Aðspurður hvernig hann myndi lýsa pakistanskum mat segir Azfar; „Maturinn er svipaður indverskum mat, nema að þessi er aðeins mildari. Við notum mjög svipuð krydd og þau sem eru í Norður-Indlandi, en það er meiri kjötmenning í Pakistan en á Indlandi, þar sem meira er eldað úr grænmeti og baunum.“


Hefur tilfinningu fyrir eldamennsku
Azfar er ekki menntaður kokkur, heldur segist bara hafa góða tilfinningu fyrir eldamennsku. „Ég lærði að elda þegar ég flutti að heiman, þá hringdi ég stanslaust í systur mína til þess að spyrja hvernig ég eldaði hitt eða þetta,“ segir Azfar, en hvað er það sem hann ætlar að kenna þátttakendum að elda á laugardaginn?

„Við ætlum að gera kjúklingarétt í karrýsósu og bauna/grænmetisrétt. Líka kenni ég að gera hið vinsæla brauð Chapati, en það er borðað þrisvar á dag í mínu heimalandi, á morgnana, í hádeginu og á kvöldin,“ segir Azfar, en um er að ræða pönnusteikt brauð sem hann segir einna helst líkjast hinum íslensku flatkökum.

Aðgangur ókeypis
Athygli vekur að námskeiðið er ókeypis, en það stendur milli 16:00-18:30. „Já, efniskostnaður er svo lítill þannig að við bara sjáum um hann. Ég vil bara endilega að sem flestir skrái sig og verði með,“ segir Azfar, en aðeins verður pláss fyrir átta þátttakendur þannig að betra er að hafa hraðar hendur við skráningu, sem hann tekur við í síma 857-6155.

 

Azfar Karim

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar