Ókunn grútarmengun í Eskifirði

Íbúar á Eskifirði urðu þess varir í morgun að nokkur grútarmengun var á stöku stöðum í fjörum við bæinn og þar mest áberandi við fjöruna á Mjóeyrinni. Hreinsunarstarf hófst um hádegisbil og vonir standa til að því ljúki í dag.

Svo virðist sem mengunin hafi orðið seint í gærkvöldi en hennar fyrst orðið vart í morgunsárið en málið er allt hið undarlegasta að sögn Hauks Jónssonar, verkstjóra hjá Eskju, en þar var virkjuð áætlun vegna þessa strax um hádegisbilið.

„Það undarlega er að það liggur ekki ljóst fyrir hvaðan þetta kemur. Við höfum grunsemdir um að þetta komi úr bæjarlögninni sem við hjá Eskju erum vissulega tengd. En hvers vegna þetta er að skila sér út núna er illt að vita því það er engin vinnsla í gangi hjá okkur. Ekki þar fyrir að lögnin er orðin gömul og lúin og við ætlum einmitt að skipta hluta hennar út síðar í sumar. Ég ætla hins vegar ekkert að firra okkur ábyrgð því þetta getur varla hafa komið annars staðar frá. Þetta er fyrst og fremst lýsisgrútur og þetta er ljótt að sjá en þarna er engin olía en neitt slíkt með.“

Haukur segir mannskap hafa verið ræstan um hádegisbilið um leið og ljóst varð að grútur væri að skila sér upp í fjörur í firðinum.

„Við reyndar fréttum þetta allt of seint eða bara rétt fyrir hádegið í dag en fórum þá strax af stað að hreinsa og erum núna langt komnir með að hreinsa Mjóeyrina og ljúkum því í dag. Svo förum við yfir aðra staði og tökum það sem við sjáum.“

Fylgst er með hreinsuninni af hálfu Heilbrigðiseftirlits Austurlands en það er Eskja sem sér alfarið um hreinsunarstarfið.

Ein fjaran á Eskifirði snemma í morgun. Mengunin er ekki talin mikil og hreinsunarstarf gengur vel. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.