Olís opnar hraðhleðslustöð á Reyðarfirði

Olís hefur tekið í notkun hraðhleðslustöð við afgreiðslu sína á Reyðarfirði. Þetta er fjórða stöðin sem fyrirtækið rekur. Fyrir eru stöðvar í Álfheimum í Reykjavík, Höfn í Hornafirði og Siglufirði.

„Það er ánægjulegt að opna nýja hraðhleðslustöð á Reyðarfirði sem er mikilvæg stöð fyrir okkur. Með henni komum við til móts við rafbílaeigendur á Reyðarfirði og nágrenni og fleiri sem munu ferðast á rafbílum um Austurland,“ er haft eftir Jóni Ólafi Halldórssyni, forstjóra Olís, í tilkynningu.

„Fjölgun hraðhleðslustöðva er liður í aukinni þjónustu fyrir okkar viðskiptavini. Rafbílum fer ört fjölgandi og við viljum að sjálfsögðu fylgja rafbílaþróuninni eftir og geta boðið rafbílaeigendum að hlaða bíla sína á þjónustustöðvum Olís

Við bjóðum upp á hraðvirkar og notendavænar hraðhleðslustöðvar þar sem aðgengi er þægilegt og snyrtilegt. Olís hefur um árabil unnið skipulega að umhverfismálum og fjölgun hraðhleðslustöðva er hluti af Grænum skrefum Olís.“

Í tilkynningunni kemur fram að tímagjaldið á hraðhleðslustöðvum Olís (50 kW) er nú 45 kr. kWst. Mínútugjaldið byrjar að telja eftir 30 mínútur frá upphafi hleðslu og er þá 10 kr./mín. Tímagjaldið á hæghleðslustöðvum Olís (22kW) er nú 23 kr. kWst og mínútugjaldið er 1 kr./mín. eftir fyrstu 30 mínúturnar. Mínútugjaldið byrjar því ekki að telja fyrstu 30 mínúturnar í hleðslu bæði á hrað- og hæghleðslustöðvum Olís.

Örn Franzson, Jón Ólafur Halldórsson, Sigurður Ástgeirsson og Jón Árni Ólafsson við hraðhleðslustöð Olís. Mynd: Olís


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.