Orkumálinn 2024

Óljóst um verslun á Stöðvarfirði eftir að Brekkan var seld

Verslunin Brekkan á Stöðvarfirði, eina verslun bæjarins, hefur verið seld fasteignafélagi en ekkert liggur fyrir um hvort nýir eigendur hyggjast halda einhvers konar verslun gangandi eða nýta húsið í eitthvað annað.

Þetta staðfestir Rósmarý Dröfn Sólmundardóttir, sem ásamt Ástu Snædísi Guðmundsdóttur, hefur rekið Brekkuna í árafjöld við góðan orðstír. Hún segir að verslunin verði opin fram í miðjan febrúar eða svo en nýir eigendur taki formlega við 1. mars næstkomandi.

„Það kemur að endalokum í öllu og við erum búnir að standa hér ansi lengi og mikið,“ segir Rósmarý aðspurð út í ástæður þessa. Verslunin hefur um tíma verið til sölu en tilboðin hingað til ekki þótt nægilega góð.

„Ég vildi að ég gæti sagt hvað nákvæmlega nýir eigendur ætla sér fyrir en staðreyndin er að ég veit það ekki fyrir víst. Kaupandinn er fasteignafélag sem heitir Tudor og ég veit að fyrirtækið hefur einnig keypt hér tvær íbúðir á staðnum þannig að það er ekki útilokað að hér verði verslun rekin áfram því ekki er óhugsandi að þeir séu að kaupa íbúðir fyrir starfsfólk. Hvort það verður með öðru formi en við höfum gert skal ósagt látið. Við þekkjum það vel hér á svæðinu hvað það þýðir að hér sé engin verslun fyrir nauðsynjar og viljum helst ekki upplifa það aftur en á þessu stig vitum við ekki hvað kaupendurnir sjá fyrir sér. Ekki væri heldur verra ef veitingasalan verður endurvakin með einhverjum hætti.“

Rósmarý segir að lager verslunarinnar hafi ekki fylgt með í sölunni og framundan sé að losna við eins mikið af honum og hægt er. Allir kælar og aðrir innanstokksmunir hafi hins vegar verið seldir með.

Hvað hún sjálf og Ásta Snædís hyggjast fyrir eftir mörg ár í Brekkunni segir Rósmarý að hún sé þegar farin að starfa hlutastarf fyrir Heilbrigðisstofnun Austurlands en Ásta ætli sér að taka sér gott frí og huga að heilsunni.

Verslunin og áður veitingastaðurinn Brekkan mun loka um miðjan næsta mánuð. Langt er fyrir íbúa að fara ef húsið verður nýtt í eitthvað annað af hálfu nýrra eigenda. Mynd Brekkan

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.