Opnað til Mjóafjarðar

Vegagerðin lauk um helgina við að opna veginn til Mjóafjarðar og telst hann greiðfær öllum bílum. Allt að fjögurra metra háir skaflar eru meðfram veginum þar sem mest lætur.

Byrjað var að ryðja leiðina síðasta mánudag. Það tók um fimm daga en jeppafært varð þar á föstudag. Yfir helgina var klárað að moka. Á ýmsu gekk og meðal annars þurfti að skipta um snjóblásara eftir bilun.

Ruðningurinn er einbreiður á kafla. Næstu daga verður unnið að því að breikka hana. Meðfram veginum eru 3-4 metra háir skaflar þar sem þeir eru hæstir.

„Þetta er meiri snjór en í fyrra. Þetta er samt allt frekar nýlegur snjór og því ekki þungur,“ segir Hinrik Þór Olivesson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði.

Vegurinn hefur verið ófær síðan snjóa tók í haust. Yfir vetrartímann gengur ferja milli Norðfjarðar og Mjóafjarðar. „Mjófirðingar eru alltaf ánægðir þegar það er opnað,“ bætir Hinrik við.

Í dag stendur annars yfir vinna í Fáskrúðsfjarðargöngum við tæknibúnað. Ökumenn eru því hvattir til að sýna aðgát á ferðum sínum þar um.

Mynd: Vegagerðin


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar