Orkukostnaður hækkaði töluvert austanlands
Árlegur kostnaður við raforkunotkun og húshitun heldur áfram að hækka mun meira í dreifbýli landsins en þéttbýli samkvæmt úttekt Byggðastofnunar fyrir árið 2024. Austfirðingar greiddu um 25 þúsund krónum meira fyrir orku árlega en meðaltalið var í landinu öllu.
Byggðastofnun hefur árlega um tíu ára skeið tekið saman orkukostnað (húshitun og raforku) sérstakrar viðmiðunareignar á hinum ýmsu stöðum á landinu svo auðveldar sé fólki að átta sig á hve mikill munur er á kostnaði vegna þessa á milli staða og landshluta.
Viðmiðunareignin sem miðað er við er 140 fermetra einbýlishús og eins og fyrri árin er orkukostnaður almennt einungis hærri á Vestfjörðum en á Austurlandi en þetta eru einu landshlutarnir þar sem árskostnaður fer að meðaltali vel yfir 300 þúsund krónur með viðmiðunareigninni.
Verri er sú staðreynd að samkvæmt tölunum 2024 er árskostnaður slíks heimilis á Austurlandi orðinn næsta jafn hár og raunin var 2021 áður en íslensk stjórnvöld juku sérstakt dreifbýlisframlag sitt verulega. Við það lækkaði ársreikningur viðmiðunareignarinar í fjórðungnum um tæpar 20 þúsund krónur.
Eigandi 140 fermetra hússins austanlands þurfti að meðaltali að greiða 310.413 krónur fyrir heildarorkukostnað á síðasta ári eða rúmlega 8 þúsund krónum meira en árið 2023. Meðaltalið segir þó ekki alla söguna því gjöldin eru afar misjöfn eftir svæðum. Þannig fara íbúar á Borgarfirði eystra verst út með ársgreiðslur upp á 354 þúsund krónur en íbúar í Fellabæ sleppa nokkuð vel í samanburði með alls kostnað upp á 238 þúsund krónur.