Ósáttur við að rjúpnaveiðimenn skjóti af byssum sínum í sumarbústaðalandi
„Það dálítið óþægilegt þegar maður er sestur niður í notalegheitum í sveitinni að heyra skothvelli fyrir utan og finna svo nýdauða fugla skammt frá húsinu, sjá bíla keyra fram og aftur og menn stara í sjónaukum heim að húsinu.“
Svo lýsir Vigfús Hjörtur Jónsson, sumarbústaðaeigandi í Vopnafirði, líðan sinni um liðna helgi þar sem fjölskyldan var að njóta þess að komast frá í góða hvíld í faðmi náttúrunnar. Sú hvíld rofin með byssuhvellum og við eftirgrennslan fundust nokkrar nýdauðar rjúpar skammt frá bústaðnum. Ekki nóg með það heldur tók hann eftir veiðimönnum skammt frá sem voru beinlínis að skjóta fugla beint úr bílum sínum í vegköntum.
„Það var aðili sem ók þarna fram og aftur á veginum skammt frá bústaðnum, beindi sjónauka ítrekað að bústaðnum og skaut svo óhikað í áttina beint úr bíl sínum. Ég geri ráð fyrir að menn viti af því að hér er trjálundur þar sem nokkrar rjúpnafjölskyldur halda sig gjarnan oft yfir allan veturinn. Ég hef reglulega verið að týna upp skothylki á vorin svo þetta er hreint ekki í fyrsta skipti sem verið er að skjóta þarna um slóðir. Þá virðast þeir lítið virða afgirt einkalönd því hér sáust spor víða innan girðingar.“
Vigfús undrast að menn gæti sín ekki betur nú þegar fjölmargir eyði helgum eða frístundum að vetrarlagi í bústöðum sínum sem oft eru í skóglendi þar sem rjúpan sækir sér gjarnan skjól.
„Ég hélt að það væri nóg pláss annars staðar til að stunda veiðar en niður í byggð. Stór heiðalönd og heilu eyðidalirnir þar sem engin er byggð og skotveiði hvorki truflar né veldur hættu.“
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Austurlandi hafa engar tilkynningar um rjúpnaveiði í sumarbústaðalöndum borist inn á borð þeirra á yfirstandandi veiðitímabili en lögreglan er með virkt eftirlit með slíku meðan á veiðum stendur. Hjalti Bergmann Axelsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir þó óumdeilt að stranglega sé bannað að vera með hlaðin vopn í ökutækjum.