Ósk um lóð undir nýja líkamsræktarstöð við sundlaugargarðinn á Egilsstöðum hafnað að sinni
Ósk forsvarsmanna líkamsræktarstöðvarinnar Austur um úthlutun lóðar undir nýja líkamsræktarstöð við fyrirhugaðan sundlaugargarð íþróttamiðstöðvarinnar á Egilsstöðum hefur verið hafnað að sinni. Ástæðan fyrst og fremst sú að skipulagning svæðisins við íþróttamiðstöðina er of skammt á veg komin til að ráð sé að úthluta lóðum eða ákvarða framtíðarstefnu svæðisins.
Hugmyndir forsvarsmanna Austur, sem sendar voru til umsagnar hjá þremur mismunandi nefndum Múlaþings fyrir nokkru, eru metnaðarfullar enda er núverandi húsnæði líkamsræktarinnar fyrir löngu sprungið og annað stærra húsnæði fyrir stöðina hvergi fyrir hendi. Með umsókn um lóð og nána samvinnu við sveitarfélagið mætti bæði stórbæta alla líkamsræktaraðstöðu, samnýta nýja búningsklefa sundlaugarinnar sem ráðgert er að setja upp á næstu árum og auka nýtingu og þá þjónustu sem í boði verður á svæðinu í framtíðinni.
Vilja byggja strax 2027
Kemur fram í erindinu að af hálfu Austur sé stefnan að hefja framkvæmdir við grunn nýrrar líkamsræktarstöðvar strax árið 2027 ef vilji er til af hálfu sveitarfélagsins að leigja út um 600 fermetra lóð á þessum stað.
„Líkamsræktarstöðin Austur er markaðsleiðtogi í líkamsrækt á svæðinu og hefur verið það síðustu tvö árin,“ útskýrir Gabríel Arnarson, einn eigenda og framkvæmdastjóri stöðvarinnar. „Það er brýnt að starfsemin geti vaxið frekar því núverandi húsnæði okkar er löngu sprungið en við erum núna með vel rúmlega 500 meðlimi og nálgumst reyndar 600 meðlima markið óðfluga en höfum aðeins rétt um 300 fermetra undir starfsemina. Ég myndi halda að nýtnihlutfallið per fermetra sé með því allra mesta í þessum bransa og líklega víðar. Það helgast auðvitað að stórum hluta af því að við höfum verið duglega að fjárfesta í nýjum búnaði og langar til að fjárfesta mun meira en plássið okkar býður eiginlega ekki upp á það eins og staðan er. Það brýnt að finna hentugan stað til framtíðar og bygging nýrrar stöðvar við íþróttamiðstöðina teljum við besta kostinn bæði fyrir okkur og sveitarfélagið.“
Of snemmt að taka slíkar ákvarðanir
Þær þrjár nefndir Múlaþings sem erindið fengu hafa nú allar tekið afstöðu. Af hálfu fjölskylduráðs var óskað eftir að sett yrði af stað þarfagreiningarvinna vegna framtíðaruppbyggingar Íþróttamiðstöðvarinnar meðan byggðaráð vísaði málinu til frekari vinnslu hjá umhverfis og framkvæmdaráði.
Fyrr í vikunni samþykktu fulltrúar umhverfis- og framkvæmdaráðs að vinna við þarfagreiningu til framtíðar verði hafin enda það í samræmi við fjárfestingaráætlun Múlaþings fyrir næsta ár. En svo segir:
„Varðandi þann hluta erindisins sem snýr að umhverfis- og framkvæmdaráði af hálfu málsaðila er frekari uppbygging á íþóttahúsinu á Egilsstöðum svo skammt á veg komin að ráðið telur ráðlegt að hafna erindinu er varðar skipulagningu lóðar aðliggjandi nýjum búningsklefum sundlaugarinnar, úthlutunar lóðar fyrir hús Austurs og gerð lóðaleigusamnings við Austur. Ráðið felur framkvæmda- og umhverfismálastjóra að eiga samtal við málsaðila og aðstoða við að finna starfseminni framtíðaraðstöðu á Egilsstöðum.“