Óþarfi að fara út í öfgar við að hreinsa verðandi flokkaðan úrgang
Forstjóri Íslenska gámafélagsins, sem sér um sorphirðu víða á Austurlandi, segir íbúa á landsbyggðinni hafa áhuga á sorpmálum og vera viljuga til að flokka. Bylgjupappi er orðin verðmæt afurð á evrópskum mörkuðum.Í byrjun síðasta árs tóku gildi nýjar reglur í sorpmálum, sem miðuðu að því að minnka því sem er hent án flokkunar eða þrýsta á endurnýtingu, meðal annars með að koma í veg fyrir að sveitarfélög niðurgreiði sorpþjónustuna. Á móti fá þau greitt frá Úrvinnslusjóði ef þau standa sig vel.
Þess vegna hafa austfirsku sveitarfélögin undanfarna mánuði verið að innleiða nýjar aðferðir í úrgangsmálum, til dæmis með að fjölga tunnum eða breyta grenndarstöðvum. Í Fjarðabyggð voru til dæmis tekin upp klippikort fyrir heimili og fyrirtæki, en klippt er af þeim þegar tekið er við úrgangi sem ekki er hægt að endurvinna því það sorp telst gjaldskylt. Tekið er frítt við endurvinnanlegum úrgangi.
Hvernig á að hreinsa?
Á sama tíma er meiri lögð áhersla á að það sorp sem er flokkað sé tækt til endurvinnslu en til þess þarf það að vera hreinsað. Matarumbúðir eiga þannig að vera lausar við matarleifar.
Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins, segir þó óþarfa að fara út í öfgar. „Það er engin ástæða til að fara í öfgar á að þrífa umbúðir. Þetta snýst um að hreinsa eins og hægt er hverju sinni. Hreinsa pappann, losa vökva og slíkt.“
Hvað verður um ruslið?
Sorphirðufyrirtækin hafa stundum hlotið gagnrýni þegar sést hefur til þeirra blanda saman flokkuðu og óflokkuðu sorpi eða urða það sem átti að vera flokkað. Jón Þórir segir að stundum hafi verið um mistök að ræða en í öðrum tilfellum hafi umbúðirnar ekki verið í nógu góðu ásigkomulagi til endurvinnslu, svo sem vegna óhreininda. Þessum atvikum hafi fækkað.
Þá er einnig alltaf spurt hvað verði um sorpið. Gámafélagið hefur verið með samninga við Múlaþing og Fljótsdalshrepp. Félagið reynir að gera sér verðmæti úr því sem er flokkað. „Allur pappi þaðan fer beint niður á svokallaða baggastöð okkar á Reyðarfirði þar sem hann er baggaður saman og síðan ekið til Reykjavíkur þar sem hann fer inn á flokkunarstöð hjá okkur.
Þar flokkum við bæði pappírinn og plastið eftir verðmæti vörunnar og síðan er það sem er nægilega gott selt til erlendra aðila. Sérstaklega er bylgjupappi mjög verðmæt vara á mörkuðum og ekki hvað síst nú þegar Evrópa er að glíma við orkuskort. Á síðasta ári fóru frá okkur um tólf þúsund tonn af pappír og plasti og það mun aukast mikið með aukinni flokkun.“
Austfirðingar vilja gera vel í sorpflokkun
Jón Þórir segir fólk hafa áhuga á að gera vel í flokkunarmálum. Það rímar við könnun sem Austurbrú gerði fyrir ári að meirihluti Austfirðinga vilji setja meiri pening í innviði eða lausnir til móttöku á úrgangi til endurvinnslu eða endurnýtingar.
Fólk hefur greinilegan áhuga á að láta frekar til sín taka í flokkunarmálum og allir viljugir að taka þátt. Fólk á landsbyggðinni virðist einhvern veginn vera tilbúnara að taka þetta aukaskref en ég tek fram að þetta er bara mitt eigið mat.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.