Skip to main content

Óvenju mikill snjór í Álftafirði og Hamarsfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. jan 2025 09:31Uppfært 20. jan 2025 13:38

Íbúar í Álftafirði bera sig bærilega þótt rafmagnslaust hafi verið þar í meira en hálfan sólarhring. Óvenju mikill snjór er þar í kring.


Rafmagn fór af svæðinu frá Bragðavöllum í Hamarsfirði að Þvottárskriðum um klukkan sjö í gærkvöldi og er ekki enn komið á. Guðmundur Eiríksson, bóndi á Starmýri 1 í Álftafirði sagði að þar væri ekki farið að kólna að neinu ráði enn í íbúðarhúsinu þegar Austurfrétt ræddi við hann upp úr klukkan níu í morgun.

Ekki hefur enn verið út hvað veldur rafmagnsleysinu en rafmagnslaust er víða til sveita á Austfjörðum. Þungfært er víða og því gengur treglega að koma viðgerðarmönnum á svæðið. Snjóflóð féll í Hvalnesskriðum seinni partinn í gær og því er ekki hægt að senda aðstoð frá Hornafirði. „Maður skilur að þetta taki sinn tíma,“ segir Guðmundur.

Guðmundur segist hafa „séð meiri“ snjó í Álftafirði bætir við að snjólétt hafi verið síðustu ár. Hann lýsir því að hlaðið hafi á girðingar og þær séu orðnar sligaðar en er annars rólegur. „Það fer vel um okkur.“

Eiður Ragnarsson, fulltrúi sveitarstjóra Múlaþings á Djúpavogi, hljóp til við að aðstoða við snjómokstur á þjóðveginum suður af Djúpavogi í morgun. Einn mokstursmanna var á heimleið til Djúpavogs í gær en komst ekki lengra en til Hornafjarðar.

Eiður segir að sérstaklega í Álftafirði og Hamarsfirði sé óvenju mikill snjór, einn sá mesti sem hann hafi séð í mörg ár. Á Djúpavogi sjálfum hafi rignt í gærkvöldi og snjórinn sjatnað við það.

Að hans sögn er einnig mikill snjór í Þvottárskriðum. Töf verður á að opnað verði um Hvalnesskriðurnar því snjóflóðinu þarf að moka í burtu, ekki hægt að stinga í gegn með hefðbundnum mokstursbíl.

Mynd úr safni. Myndir og lýsingar af ástandinu má senda á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.