Skip to main content

Óvissustig vegna ofanlóðahættu á sunnanverðum Austfjörðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. jan 2025 17:52Uppfært 31. jan 2025 17:54

Veðurstofan hefur lýst yfir óvissustigi vegna hættu á ofanflóðum á sunnanverðum Austfjörðum. Spáð er mikilli rigningu þar í nótt. Engar rýmingar eru áformaðar að svo stöddu.


Óvissustigið tekur gildi klukkan 20:00 í kvöld. Samkvæmt yfirliti frá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands er búist við rigningu frá því í kvöld og fram yfir hádegi á morgun. Eftir það kólnar til fjalla en hitinn á láglendi verður yfir frostmarki.

„Töluverður snjór er á svæðinu sem hefur gengið í gegnum hlýindi og er því lagskiptur. Með skilunum fylgir mikið hvassviðri, sem eykur bráðnun snævarins.

Mesta úrkoman á að falla til fjalla, en einnig má búast við verulegri úrkomu í dölum og fjörðum sunnan Reyðarfjarðar. Vegna þessa mikla úrkomumagns eykst hættan á blautum snjóflóðum og krapaflóðum,“ segir þar.

Hjá ofanflóðadeildinni fengust nánari upplýsingar um að snjórinn eystra virðist almennt stöðugur sem sést á að ekki hafi fallið snjóflóð síðustu daga. Engar rýmingar áformaðar að sinni fyrir utan að beðið hefur verið um að eitt atvinnuhúsnæði í Fáskrúðsfirði verði mannlaust.

Vegfarendur og ferðafólk er hvatt til að sýna aðgæslu á stöðum þar sem grjót getur fallið og nærri vatnsfarvegum þar sem krapaspýjur geta borist niður.

Gul viðvörun er í gildi á Austfjörðum frá klukkan 22 í kvöld til 11 á morgun vegna hvassviðris og úrkomu. Eins er viðvörun á Austurlandi og appelsínugul á Suðausturlandi. Óvissustig vegna snjóflóða á Fagradal tók gildi klukkan 16:30. Óvissustig er á vegunum um Vopnafjarðarheiði og Möðrudalsöræfi og varað við að þeir geti lokast með skömmum fyrirvara vegna skafrennings og vinds.

Farið verður nánar yfir stöðuna fyrir nóttina og sendar út upplýsingar ef ástæða þykir til að breyta þessum ákvörðunum frekar.

Mynd úr safni frá Eyþóri Stefánssyni.