Óvissustigi lýst yfir vegna mögulegrar snjókomu
Ríkislögreglustjóri hefur, meðal annars í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi, lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna norðanhríðar sem spáð er í kvöld. Sérstakar áhyggjur eru af sauðfé á fjöllum.„Það er spáð mikilli ofankomu og talsverðum vindi. Áhyggjurnar lúta helst að fé á fjöllum sem menn hafa áhyggjur af að fenni jafnvel í kafi eins og gerðist hér 2012,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi.
Búið er að hafa samband við sveitarstjórnir alls staðar, nema í Djúpavogshreppi, þar sem ekki er reiknað með að óveðrið nái svo sunnarlega.
Eins og Austurfrétt greindi frá í gær héldu Fljótsdælingar til fjalla í gær og smala áfram í dag. Kristján Ólafur segir Vopnfirðinga hafa gert ráðstafanir. Þar átti að rétta í Teigsrétt á sunnudag en henni hefur verið seinkað til mánudags.
Annars staðar eru sveitarstjórar í sambandi við fjallskilastjóra. Kristján Ólafur segir að staðan verði tekin aftur eftir hádegið. „Það eiga allir að vera eins viðbúnir og hægt er.“
Spáð er norðan hvassviðri, 15-20 m/s og talsverðri úrkomu. Hiti verður nærri frostmarki og því líklegt að úrkoma falli sem slydda ofan 300 metra yfir sjávarmáli og sem snjókoma ofan 500 metra.
Líkur eru á að færð geti spillst á fjallvegum. Því er því beint til vegfarenda að fylgjast vel með bæði veðurfregnum og upplýsingum Vegagerðarinnar um færð á vegum.
Mynd úr safni frá Ragnari Antonssyni.