Skip to main content

Óvissustigi vegna ofanflóða aflýst

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. feb 2025 20:33Uppfært 03. feb 2025 21:45

Veðurstofan hefur aflétt óvissustigi vegna ofanflóðahættu á Austfjörðum sem lýst var yfir á föstudagskvöld.


Þó nokkur krapaflóð og eða aurskriður féllu aðfaranótt laugardags. Sú sem hafði mest áhrif kom niður farveg skammt innan við Búlandsá í Berufirði og lokaði veginum þar á laugardagsmorgunn. Íbúum á Djúpavog hefur síðan verið ráðlagt að sjóða neysluvatn þar sem grugg er í vatninu.

Einnig féllu flóð í Eskifirði, Reyðarfirði, Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði. Einhver þeirra fóru niður á vegi en ollu ekki teljandi skaða.

Aftur gerði vatnsveður í gærkvöldi og stóð það fram eftir degi. Á þeim tíma var ítarlega fylgst með farvegum þar sem hætta var talin á flóðum. Þegar leið á daginn stytti upp og kólnaði. Áfram er spáð kólnandi veðri og er talið að mesta hættan sé úr sögunni.

Ný gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir miðvikudag og fimmtudag, en þá er von á miklu hvassviðri.

Í Berufirði á laugardag. Mynd: Eiður Ragnarsson