Óvíst hver tekur við rekstri Uppsala og Hulduhlíðar

Enn er óvíst hvernig rekstri hjúkrunarheimilanna á Fáskrúðsfirði og Eskifirði verði háttað eftir 1. apríl þegar núverandi samningur Fjarðabyggðar og ríkisins rennur út. Bæjarstjóri Fjarðabyggðar vonast til að máli taki að skýrast þannig að umskiptin gangi sem greiðast fyrir sig.

Sveitarfélagið hefur rekið hjúkrunarheimilin Uppsali á Fáskrúðsfirði og Hulduhlíð á Eskifirði samkvæmt samningum við ríkið og fengið greitt samkvæmt daggjöldum. Á hvoru þeirra eru 20 hjúkrunarrými. Rekstur þeirra hefur samt verið þungur og hefur sveitarfélagið borgað 130 milljónir inn í reksturinn síðustu þrjú ár.

Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, segir að vegna þessa hafi bæjarstjórn ákveðið, að vandlega athuguðu máli og viðræður við heilbrigðisráðuneytið, að segja upp samningunum síðasta haust og renna þeir út þann 1. apríl.

Jón Björn segir að lítið hafi heyrst í fyrstu frá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ), sem halda utan um málefni hjúkrunarheimilanna fyrir ríkið, og því hafi sveitarfélagið óskað eftir formlegum viðræðum í desember. Í byrjun þessa mánaðar auglýsti SÍ svo eftir aðilum til að taka við rekstrinum en engin tilboð bárust áður en fresturinn rann út 15. febrúar.

Mikilvægt að umskiptin gangi smurt

Hann segir sveitarfélagið hafa verið í samskiptum við SÍ síðan, síðast í gær og þær upplýsingar fengist að unnið væri að lausn milli heilbrigðis- og fjármálaráðuneytisins. Af hálfu sveitarfélagsins sé brýnt að málin skýrist sem fyrst þannig að umskiptin gangi sem greiðast fyrir sig þannig að starfsfólk, íbúar og aðstandendur finni fyrir sem minnstum óþægindum.

Byrjað er að undirbúa flutninginn en Jón Björn segir ekki hafa komið til tals að samið verði á nýtt við Fjarðabyggð. „Í viðræðum okkar við ráðuneytið fórum við ítarlega yfir að reksturinn gengi ekki á þeim daggjöldum sem voru greidd, þótt við höfum sýnt bæði ráðdeild og hagsýni í rekstri. Gjöldin hafa ekki dugað til að standa undir þeim kröfum sem ríkið gerir og við reynum að uppfylla. Við fórum fram á að það væri að minnsta kosti leiðrétt til að þetta gæti gengið og fyrir því fékkst ekki hljómgrunnur.

SÍ hefur falið okkur að undirbúa flutninginn, það er vinna í frágangi og afhendingu gagna en við þurfum að vita hvert við eigum að skila af okkur. Vonandi skýrist það fljótlega,“ segir Jón Björn.

Reksturinn með ýmsu móti

Hjúkrunarheimili á landinu eru rekin með ýmsum hætti. Sums staðar sjá sveitarfélögin um reksturinn, Fjarðabyggð hefur rekið tvö og Vopnafjarðarhreppur rekur Sundabúð en annars staðar stendur ríkið að þeim sjálft. Þannig eru hjúkrunarheimilin á Egilsstöðum og Seyðisfirði auk sjúkradeildarinnar í Neskaupstað undir Heilbrigðisstofnun Austurlands. Enn önnur hjúkrunarheimili eru í höndum einkaaðila eða séreignastofnanna auk þess sem tvö hjúkrunarheimili tilheyra Vigdísarholti ohf. Það þriðja bætist við innan skamms eftir að Sveitarfélagið Hornafjörður sagði upp samningi um reksturinn á Höfn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.