Páll Baldursson: Hvað fá menn með að færa Hringveginn?
Páll Baldursson, sveitarstjóri Breiðdalshrepps, spyr hvað menn telji sig fá með að færa Hringveginn af Breiðdalsheiði yfir á firði annað en það að hafa örfáa brauðmola af nágrönnum sínum.
Það gerir hann í grein á vef Breiðdalshrepps. Páll segist efins um að menn fái betri þjónustu, hún sé ekki svo góð á þeim vegakafla sem færa eigin veginn á. Hann efast einnig um að vegnúmerið ráði því hvert ferðamenn fari.
„Er þá hugsunin að ná þeim örfáu brauðmolum sem dottið gætu inn á framangreindan vegakafla í Breiðdal til sín? Ef svo er þá er það merkilegt í því ljósi að forsvarsmenn þess sveitarfélags á Austurlandi, sem hvað mestan stuðning hafa fengið á liðnum árum, skuli tala hæðst um færslu á þessu umtalaða þjóðveganúmeri. Falleg hugsun gagnvart nágrönnum sínum!“
Páll segist tilbúinn að taka þátt í umræðum um veganúmer aða „aðra hringavegavitleysu“ þegar forsvarsmenn Fjarðabyggðar hafi náð því í gegn að síðasti kaflinn á þjóðvegi eitt hafi verið klæddur.