Pósthús eystra opin á morgun

Pósthús á Austurlandi verða opin á morgun, laugardaginn 5. desember þar sem póstur hefur ekki borist inn á svæðið vegna ófærðar síðustu daga.

Póstbíll fór úr Reykjavík seinni partinn í dag og er væntanlegur austur í nótt, en bílar komust hvorki austur í gær né fyrr í dag vegna óveðurs og ófærðar.

Þess vegna verða sjö pósthús á Austurlandi opin á morgun. Á Egilsstöðum, Reyðarfirði, Höfn og í Neskaupstað verður opið frá 10-14 en á Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Djúpavogi frá 11-15.

Þá segir í tilkynningu frá Póstinum að keyrt verði út á stærri stöðum á landinu um helgina þar sem heimkeyrsla er í boði.

„Eins og staðan er núna er veðrið ekki að spila með okkur en við leggjum allt kapp á að koma sendingum áfram á áfangastaði sem allra fyrst. Það er allra hagur að sendingar komist til viðtakanda við fyrsta tækifæri.

En á sama tíma verðum við að sjálfsögðu að huga að öryggi starfsmanna og við förum ekki af stað nema aðstæður séu öruggar. Við stefnum á að fara í kvöld þannig að allt ætti að vera komið í eðlilegt horf eftir helgi,” er haft eftir Herði Jónssyni, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.