Púsluspil hvern dag að reka kjörbúð á Vopnafirði

Í sumar verða fjögur ár liðin frá því að nýir eigendur, Fanney Hauksdóttir og Eyjólfur Sigurðsson, tóku við rekstri kjörbúðarinnar Kauptúns á Vopnafirði .Fyrri eigendur höfðu ákveðið að hætta eftir 30 ára starfsemi og fram á síðustu stundu var ekki útlit fyrir að neinn tæki við.

Á minni stöðum eins og Vopnafirði skiptir miklu máli að hafa verslun, enda langt að fara í þá næstu. Um þrjá tíma þarf til að keyra fram og til baka í næstu stórmarkaði á Egilsstöðum eða Akureyri

„Þetta er heilmikið púsluspil hvern einasta dag. Við þurfum að gæta að því hvort og hvenær þessir stóru aðilar á staðnum þurfa vistir. Við erum að selja matvörur til hjúkrunarheimilisins Sundabúðar,svo auðvitað fá skip Brims og önnur skip sem hingað koma gjarnan kost og vistir hjá okkur. Þetta verðum við allt að eiga til á réttum tíma í viðbót við það að þjónusta alla bæjarbúa með sitt.

Að sama skapi getum við illa hangið á stórum lager til að ná fram sparnaði, eins og stórverslanir geta gjarnan gert, og allra síst megum við við því að henda vörum vegna dagsetninga eða annars slíks. Við njótum engan veginn sömu kjara þegar við kaupum af stórum birgjum eins og stórverslanirnar og munar á köflum ansi miklu á verði,“ útskýrir Fanney.

Fanney segist afar fúl með að þegar það sé Austurlandið sem skapi hvað mestar útflutningstekjur landsins alls þá þurfi að sækja allar vistir og mat suður til Reykjavíkur.

„Allt kostar meira fyrir Austfirðinga en aðra, plús flutningskostnaðinn sem oft á tíðum er drjúgur. Við hér vinnum meira, sköpum meira en þurfum svo að borga meira! Þetta finnst mér svívirðilegt. Við fáum alltaf verri þjónustu og hún kostar meira. Það er töluvert rangt við það að mínu mati.“

Fanney og Eyjólfur hafa gefið Kauptúni nokkra andlitslyftingu síðan þau tóku við. Gömul kælum verið skipt út og aðgengi að vörum bætt. Þá var versluninni lokað einn laugardag í nóvember á meðan gólfið var lagfært.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar