Ráðherra telur þörf á að skoða umhverfi hreindýraveiða

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, telur tíma kominn á að fara yfir þær reglur sem gilda um vöktun íslenska hreindýrastofnsins og veiðar úr honum. Námskeiðshald fyrir leiðsögumenn með veiðum hefur verið kært til ráðuneytisins.

Óánægja blossaði í vetur upp með hvernig Umhverfisstofnun valdi inn á fyrir nýja leiðsögumenn með hreindýraveiðum eftir að um 100 sóttu um 30 sæti.

Kvartanir komu meðal annars inn á borð Múlaþings þar sem byggðaráð bókaði að vanda skyldi til verka þegar leiðsögumönnum væri fjölgað og verja „það góða kerfi sem komið hefur verið á“ Samskipti þurfi að vera góð milli allra aðila, landeigenda, sérfræðinga og leiðsögumanna og Umhverfisstofnun hvött til að hafa sveitarfélög með í ráðum um mögulegar breytingar á hreindýraveiðum.

Í bókuninni er lögð áhersla á að námskeiðahald verði staðbundið á nærsvæðum hreindýraveiða. Leiðsögumenn af Austurlandi hafa lýst áhyggjum sínum að mælikvarðar Umhverfisstofnunar við val inn á námskeiðið þýði að grafið verði undan þeim sem byggja atvinnu sína á leiðsögninni en opnað fyrir þá sem í raun hafi leiðsögnina að áhugamáli.

Í sérstakri bókun Þrastar Jónssonar, bæjarfulltrúa Miðflokksins, eru þær áhyggjur ítrekarðar. Hann hann leiðsögnina viðkvæma atvinnugrein þar sem einstaklingar hafi fjárfest mikið til að geta sinnt starfinu. Með fjölgun af öllu landinu bætist fyrst og fremst við þeir sem leiðsegi vinum og vandamönnum sem vegi að atvinnu heimafólks. Hann minnir á að leiðsögnin sé tilkomin því sveitarfélög og bændur hafi gefið frá sér réttinn til úthlutunar leyfa til ríkisins í stað fyrir mögulega atvinnu með leiðsögn. Því eigi að krefjast þess að námskeiðin séu haldin á Austurlandi og próf um staðkunnáttu þyngd.

Átta kærur vegna námskeiðs


Samkvæmt upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu hafa átta kærur borist vegna námskeiðsins. Um þær eru ekki veittar nánari upplýsingar á þessari stundu og ráðherra getur ekki tjáð sig um þær, því það gæti skapað vanhæfi.

Nánar aðspurður um málið kveðst Guðlaugur Þór fagna því að loks hafi verið haldið námskeið, en það síðasta var haldið árið 2011. Óháð kærumálum þurfi að fara í frekari vinnu við að meta kvartanir og ábendingar sem borist hafa sem og þörfina á leiðsögumönnum. Mikilvægt sé að vandað sé til verka við hana.

Heitir samráði við heimafólk


Þá segir hann einnig þörf á að fara yfir mál sem snúa að stjórnun hreindýrastofnsins í víðara samhengi. „Ég hef haft hug á að setja af stað vinnu til að skoða þessi mál en það þarf að gerast án þess að á þeim sé sérstök tímapressa. Heilt yfir hefur stjórnunin gengið vel en tímarnir breytast.

Það verður mikið samráð við heimamenn þegar við förum af stað í þessa vinnu. Það hafa engir betri þekkingu á dýrunum en þeir sem hafa lifað með þeim alla ævi og þá erum við bæði að tala um fólk sem sinnir rannsóknum og veiðimenn,“ segir Guðlaugur Þór sem hefur sjálfur stundað hreindýraveiðar í gegnum tíðina.

„Þegar ég sótti fyrst um leyfi í lok síðustu aldar þá voru fleiri leyfi en umsækjendur. Þegar ég sótti um síðast fékk ég hærri sætistölu á biðlista en ég gat ímyndað mér að hægt væri til. Það er því margt breytt.“
 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar