Ráðuneytið skoðar áhrif dóms Hæstaréttar á aðrar friðlýsingar

Lögfræðingar umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðuneytið fara nú yfir möguleg áhrif dóms Hæstaréttar sem nýverið felldi úr gildi friðlýsingu vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum. Ráðherra segir mikilvægt að vanda til verka við næstu skref.

Austurfrétt rakti dóminn, sem féll í lok mars, í gær. Í grófum dráttum þá var vatnasvið árinnar friðlýst eftir að tveir virkjanakostir voru settir í verndarflokk í rammaáætlun.

Hæstiréttur ógilti friðlýsinguna á þeim forsendum að of langt hefði verið gengið. Í fyrsta lagi væri rammaáætlunin þingsályktun en ekki lög og í öðru lagi hefði Alþingi þurft að lýsa vilja sínum til að friða afmarkað landssvæði en ekki bara útiloka tiltekna virkjunarkosti.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra, ræddi dóminn á fundi ríkisstjórnarinnar fyrr í mánuðinum. Hann segir enn unnið að því innan ráðuneytisins hvernig skuli brugðist við.

„Það þarf að bregðast við dóminum og við erum að fara yfir hvernig það verði gert. Á þessu stigi er erfitt að úttala sig um hvað verði gert því vinnan hjá okkur er ekki endanlega búin. En við munum eðlilega bregðast við þessum dómi.“

Það voru landeigendur Brúar á Jökuldal, sem á land að ánni, sem höfðuðu máli. Jón Jónsson, lögmaður þeirra, sagði í samtali við Austurfrétt í gær að hann lyti svo á að aðrar friðlýsingar sem byggðu á 2. áfanga rammaáætlunar, þingsályktuninni frá 2013, væru einnig ógildar.

„Við erum að skoða hvaða áhrif þetta hefur á aðrar friðlýsingar og ef svo er þá í hvaða ferli það fer. Málið er aðeins flóknara en bara þessi dómur og við erum að vinna praktískt úr því.“

Hæstiréttur klofnaði í dóminum, þrír dómarar af fimm skrifuðu undir meirihlutaálitið. Tveir dómarar skiluðu sératkvæði. Þeir virðast á þeirri skoðun að friðlýsingin sjálf sé í lagi en velta upp ákvörðun Alþingis og mögulegum skaðabótum til landeigenda. Þeir skera ekki úr um það þar sem meirihlutinn tók undir aðalkröfu landeigendanna um ógildinguna.

Aðspurður um hvort dómurinn hafi komið á óvart segir Guðlaugur Þór að aldrei sé hægt að bóka fyrirfram að hvaða niðurstöðu dómstólar komist. Fyrir mestu sé að niðurstaða sé komin í málið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar