Ræddu foreldragreiðslur sem valkost við leikskólavist
Á nýlegum fundi fræðslunefndar Fjarðabyggðar var rætt um foreldragreiðslur sem þriðja valmöguleika foreldra með 12 mánaða börn ef ekki væri möguleiki á leikskólaplássi eða dagforeldri.Einar Már Sigurðarson formaður fræðslunefndar segir að umræðan snúist um að tryggja bestu þjónustu sem völ er á hverju sinni.
„Það skal tekið fram að til umræðu voru drög að breytingum á reglum um dagvistun barna í heimahúsi þar foreldragreiðslum yrði bætt við sem þriðja valkosti,“ segir Einar Már. „Fyrsti valkosturinn er leikskólapláss, annað hvort á staðnum eða í nærliggjandi byggðakjarna. Annar valkosturinn væri dagforeldri og þetta kæmi svo inn sem þriðji valkostur. Hugmyndin er að foreldragreiðslur yrðu þá svipaðar og gengur og gerist með greiðslur til dagforeldra.“
Einar Már segir einnig að fræðslunefnd hefði litist vel á framangreind drög á ákveðið að vísa þeim til félagsmálanefndar til umfjöllunnar og afgreiðslu.
Fram kemur í máli hans að leikskólamál séu almennt í mjög góðu standi í Fjarðabyggð enda mikið gert í þeim á liðnum árum. Það sem sé framundan nú sé að endurbæta og byggja við leikskólann á Eskifirði. Það mál sé statt á hönnunarstiginu í augnablikinu.