Rafmagn komið á Álftafjörð og Stöðvarfjörð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. jan 2025 16:53 • Uppfært 20. jan 2025 16:54
Rafmagnslínur eru víða illa farnar á Austfjörðum eftir mikla ísingu í nótt. Á einhverjum stöðum mun þurfa að keyra varaafl til að koma rafmagni á aftur. Þéttbýlið í Stöðvarfirði og Álftafjörður eru aftur komin með rafmagn.
Rafmagn komst á í Álftafirði undir klukkan 14 í dag en það fór fyrir klukkan 19 í gærkvöldi. Íbúar á rúmlega 10 bæjum voru því án rafmagns í um 19 klukkustundir. Samkvæmt upplýsingum frá Rarik sligaði mikil ísing línur. Rafmagnið komst á þegar ísingin hafði verið hreinsuð. Ekki er búist við frekari truflunum þar eins og sakir standa.
Á Stöðvarfirði komst rafmagn á um klukkan 16 í dag, um sléttum 12 tímum eftir að það fór. Það var gert með að tengja jarðstreng og spennusetja. Línan sjálf er illa farin og fjöldi staura í henni brotinn. Þess vegna er enn rafmagnslaust utan við þorpið. Líklega verður það leyst með varaaflsvélum. Fjórir viðskiptavinir Rarik eru þá án rafmagns í stað 190 áður.
Í Berufirði fór rafmagnið af um klukkan tvö í nótt, frá botni og út fjörðinn norðanverðan. Þar hafa staurar bæði brotnað og brunnið og lína slitnað. Viðgerð stendur yfir en þar eru um tíu heimili.
Í sunnanverðum Reyðarfirði slitnaði lína í mikilli ísingu. Búið er að splæsa línunni saman en fleiri bilanir eru á henni og því er enn rafmagnslaust frá Berunesi að Vattarnesi. Rafmagn fór þar af um miðnætti.
Um það leyti fór einnig rafmagn af í sunnanverðum Fáskrúðsfirði, frá Tungu að Grænnípu. Þar hafa línur slitnað og staurar brotnað. Búið er að koma rafmagni á hluta svæðisins en ekki allt.
Þessu til viðbótar byrjuðu rafmagnstruflanir í Lóni í gærdag. Þar hefur verið hægt að tryggja flestum varaafl en ekki öllum. Þar slitnuðu línur og nokkur fjöldi staura brotnaði. Verið er að undirbúa viðgerð.
Í yfirliti Rarik segir að endanlegar viðgerðir á staurum og línum geti tekið einhverja daga. Verið er að undirbúa varaflvélar sem tengdar gætu verið fyrir einstaka viðskiptavini á meðan viðgerðir kláraðast. Aðstæður á svæðinu eru sagðar afar krefjandi. Upp úr klukkan 16 voru 39 heimili enn án rafmagns.