Skip to main content

Rarik vonast til að HEF taki við fjarvarmaveitunni á Seyðisfirði í byrjun árs

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. jan 2025 12:05Uppfært 03. jan 2025 12:05

Gjaldskrá á heitu vatni til húshitunar á Seyðisfirði hækkaði um áramótin um 10% þar sem keypt er forgangsorka í fjarvarmaveitu staðarins. Niðurgreiðslur hafa þó orðið til þess að húshitunarkostnaður þar er heldur á niðurleið. Rarik vonast til þess að HEF Veitur taki við rekstri kerfisins snemma á þessu ári.


Þetta kemur fram í yfirliti Rarik um breytingar á verðskrá félagsins um áramótin. Strangt til tekið hækkar orkugjaldið á Seyðisfirði um 29,5% og fasta- og rúmmetragjald um 2,2% en með auknum niðurgreiðslum, sem tóku gildi 1. október, jafngildir þetta 9,8% hækkun á hitakostnaði heimila þar. Samkvæmt nýju yfirliti Byggðastofnunar um húshitunarkostnað hafa auknar niðurgreiðslur á orku til húshitunar undanfarin ár þó gert það að verkum að húshitunarkostnaður á Seyðisfirði hefur lækkað töluvert.

Fjarvarmaveitan hefur á köflum síðustu ár verið keyrð á á olíu. Hún hefur vanalega verið rekin á skerðanlegri raforku, en hún hefur ekki alltaf verið í boði. Í ljósi kostnaðar og mengunar gerði Rarik fjögurra ára samning um kaup á forgangsorku. Fyrirtækið segir samninginn hagstæðan, samanborið við raforkumarkaðinn og væntingar um þróun hans, en þetta leiði engu að síður til hækkana.

Í mars í fyrra gaf Rarik það út að það hygðist hætta rekstri fjarvarmaveitunnar, sem það hefur sagt úr sér gengna og dýra, í síðasta lagi um þessa áramót. Félagið reyndi það einnig árið 2019 en gaf eftir í kjölfar mótmæla. Rarik bauð í staðinn Múlaþingi að eignast fjarvarmaveitukerfið.

Áformunum er frestað að sinni en í Múlaþing hefur, í gegnum HEF veitur, skoðað ástand kerfisins, fjárfestingarþörf og mögulegar framtíðarlausnir í húshitun á Seyðisfirði. Í tilkynningu Rarik segir að unnið sé að því að HEF veitur taki yfir fjarvarmaveituna nú í byrjun árs.