Rauð viðvörun: Von á miklum hviðum og víðfeðmu foktjóni
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. feb 2025 15:19 • Uppfært 05. feb 2025 15:19
Veðurstofan hefur gefið út rauðar viðvaranir fyrir veðurspásvæðin Austurland að Glettingi og Austfirði sem taka gildi klukkan 18 í dag og gilda í um sólarhring. Veðurfræðingur segir von á einstaklega hviðusömu veðri og miklar líkur séu á foktjóni.
„Við eigum von á háum meðalvindhraða og einstaklega hviðusömu veðri,“ segir Eiríkur Örn Jóhannsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Á Austurlandi að Glettingi tekur fyrst gildi appelsínugul viðvörun klukkan 16:00 í dag. Frá klukkan 18 til fjögur í nótt og aftur frá átta í fyrramálið og til 17:00 verða í gildi rauðar viðvaranir. Á þeim tíma er spáð sunnan og suðvestan 28-33 m/s og staðbundnum hviðum upp á 50 m/s.
Á Austfjörðum verða appelsínugular viðvaranir í gildi frá 16-20 í dag, aftur snemma í fyrramálið, frá fjögur til sjö og loks frá 18-20 síðdegis á morgun. Þá er spáð suðvestan 23-30 m/s með staðbundnum hviðum upp á 40 m/s.
Rauðar viðvaranir gilda þar frá átta í kvöld til fjögur í nótt og aftur frá sjö í fyrramálið til 18 á morgun. Þá bætir í vindinn, spáð er suðvestan 28-33 m/s og staðbundnum hviðum upp á 50 m/s.
Varasamt að vera á ferð utandyra
Vindstyrkurinn þýðir að foktjón er líklegt og jafnvel hættulegt að vera á ferð utandyra. „Við eigum von á víðfeðmu foktjóni því þetta er sjaldgæfur vindstyrkur. Til viðbótar við hefðbundið foktjón geta þakplötur farið af stað eða bátar við bryggju. Við vitum að hviður geta verið skæðar ef þær ná miklum styrk og í þessu veðri er innistaða fyrir talsvert miklum hviðum.“
Eiríkur segir þó erfitt að segja um hvar hviðurnar eða veðurhæðin verði mest á Austurlandi. Afmarkaðir staðbundnir þættir ráði því.
Til viðbótar við vindinn er spáð talsverði úrkomu, einkum á sunnanverðum Austfjörðum. Að auki er spáð 3-8 stiga hita. Saman leiðir þetta til leysinga og vatnavaxta. Hætta er á skriðum eða krapaflóðum, sem og grjóthruni eftir að veðrið er gengið yfir, en ekki er talin hætta í byggð. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir hættustigi, sem þýðir að veðrið er talið ógna öryggi fólks eða byggðar.
Veður með um tíu ára endurkomu
Á mánudag gekk hvassviðri yfir fjórðunginn sem olli skemmdum, einkum virðist afar snörp hviða í Neskaupstað hafa gert það en hún braut rúður og tré. Austfirðingar muna eflaust enn vel eftir veðrinu sem gekk yfir í september 2022 og olli einkum tjóni á Reyðarfirði.
Eiríkur segir það veður hafa verið annars eðlis. Þá hafi vindur staðið úr norðvestri og meðalvindhraði verið hærri. Það veður sem líkist því sem væntanlegt er helst í seinni tíð gekk yfir landið 14. mars árið 2015. Það veður lenti þó helst á vesturhluta landsins þótt hvasst væri á Austfjörðum og tjón á til dæmis Vopnafirði og Seyðisfirði. Meðalvindhraði á Dalatanga mældist þá til dæmis um 30 m/s. Það veður var kallað versti sunnanvetrarstormur frá 2007.
Mynd úr safni.