Reiðarslag ef enginn loðnukvóti er gefinn út þriðja árið í röð
Forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir það reiðarslag ef loðnubrestur verður þriðja árið í röð. Hafrannsóknastofnun leggst gegn veiði eftir nýafstaðinn rannsóknaleiðangur. Gunnþór telur þó rétt að anda með nefinu að sinni.„Það hefur sýnt sig í gegnum árin að oft er ekki mikið að marka þessa haustmælingu hjá Hafrannsóknarstofnun,“ segir Gunnþór Ingason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar.
Eins og Austurfrétt greindi frá í dag var það niðurstaða að loknum haustleiðangri Hafrannsóknastofnunar að veiðistofn loðnunnar væri of lítill til að rétt væri að mæla með að gefinn yrði út byrjunarkvóti fyrir loðnuvertíð á fiskveiðiárinu 2020/21.
Það eru vonbrigði því leiðangur sem farinn var á sama tíma fyrir ári gaf góð fyrirheit. Gunnþór vill halda í vonina um að sú loðna komi fram en leitað verður á ný í janúar og febrúar um það leiti sem veiði ætti að hefjast. „Þessi loðna er þarna einhversstaðar og það þarf bara að finna hana,“ segir hann.
Áætlað útflutningsverðmæti loðnu á árunum 2016-18 nam 18 milljörðum króna, þar af komu tæpir 5 milljarðar í hlut útgerða með heimilisfesti í Fjarðabyggð. Hvorki veiddist loðna í ár né fyrra en fyrirtækin gátu haldið í markaði í vetur með að selja birgðir. Þá var varað við að staðan væri orðin viðkvæm til frambúðar.
Þótt Gunnþór telji enn of snemmt að setja fram hrakspár er ljóst að rétt er að hafa varann á. „Það er ljóst að ef þetta verður niðurstaðan, og þá þriðja árið í röð, er um reiðarslag að ræða fyrir okkur og byggðalögin hér.“