Skip to main content

Reiknað með að veðrið nái hámarki um klukkan ellefu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. feb 2025 10:21Uppfært 06. feb 2025 10:22

Búist er við að hvassviðrið sem gengur yfir Austurland nái hámarki um klukkan ellefu. Ekki fer þó að lægja neitt fyrr en eftir klukkan fjögur. Hviða yfir 60 m/s mældist á Gagnheiði í nótt.


„Þetta er að byggjast upp núna. Samkvæmt spám verður veðurhamurinn núna í kringum klukkan 11. Þá ætti það að vera komið í hámark þótt það dragi ekkert úr því fyrr en upp úr klukkan 16. Veðurhæðin virðist núna vera að færast norður eftir,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Rauðar viðvaranir tóku gildi á bæði Austurlandi og Austfjörðum og gilda fram undir klukkan 18. Að auki var bætt við rauðri viðvörun á Suðausturland eftir hádegi. Foktjón er orðið á nokkrum stöðum en viðbúið er að tilkynningum fjölgi bæði núna þegar betur sést til þegar bjart er orðið og veðrið nær hámarki.

„Mesti strengurinn liggur yfir Austurlandi og þar skella niður hviðurnar sem við höfum helst áhyggjur af. Það er mikill kraftur hátt upp í veðrahvolfið og hætta á að hann skelli sér niður hlémegin fjalla. Við getum nefnt staði eins og Smjörfjöllin en líka firðina.“

Mesta hviða sem mælst hefur í óveðrinu var upp á 66 m/s á Gagnheiði um klukkan ellefu í gærkvöldi. Það er nokkuð frá þeirri sem mælst hefur á Íslandi, 74,5 m/s á sömu stöð þann 16. janúar árið 1995. Á sama tíma mældust 54 m/s hviður á Vattarnesi. Þar fauk þak af fjárhúsum. Í morgun hafa mælst 52 m/s hviður á Vattarnesi. Í Kambaskriðum var þá 50 m/s í hviðu.

Á tíunda tímanum í morgun mældist 59 m/s hviða í Berufirði á mæli hjá fiskeldistöð. Eins kom fram 55 m/s hviða á annarri fiskeldisstöð í Fáskrúðsfirði.

Hlýtt hefur verið á Austurlandi, yfir 13 stig á nokkrum stöðum. Von er á úrkomu þegar líður á, syðst á Austfjörðum er þegar byrjað að rigna.

Í tilkynnigu lögreglu segir að utandyra sé ekki stætt og varað við að fólki á ferli, hvort sem er gangandi eða í bílum, kunni að stafa hætta af fjúkandi hlutum.