Reiknað með tæplega 800 milljóna afgangi þótt ekki veiðist loðna
Búist er við 792 milljóna króna afgangi hjá Fjarðabyggð á næsta ári samkvæmt fjárhagsáætlun, sem rædd var í bæjarstjórn í fyrsta sinn í gær. Framkvæmdir við íþrótta- og skólamannvirki verða fyrirferðamest í A-hluta sveitarsjóðs.
Gert er ráð fyrir afgangi upp á 792 milljónir úr samstæðunni, þar af 262 milljónum frá A-hluta, sem í grófum dráttum er rekstur fjármagnaður með skatttekjum meðan í B-hlutanum eru sérstofnanir, eins og hafnarsjóður og veitur, sem hafa sértekjur.
Reiknað er með að heildartekjur verði 12,2 milljarðar, hækkun upp á hálfan milljarð, þar af verði tekjur A-hluta 9,7 milljarðar. Mesta óvissan í tekjuáætluninni er um loðnuveiðar en gert er ráð fyrir að ekkert veiðist. Gefinn hefur verið út 44.000 tonna upphafskvóti sem væri einhver en mjög lítil vertíð.
Umfangsmiklar framkvæmdir við íþróttamannvirki
Framkvæmdir eru áformaðar fyrir rúman einn milljarð króna. Þar fer mest, 450 milljónir, í hafnarframkvæmdir en undir því er dýpkun á Eskifirði, endurbætur á Fáskrúðsfirði og skipulag við Mjóeyrarhöfn.
Í A-hlutanum eru framkvæmdir við nýtt íþróttahús á Eskifirði og lokun stafna ásamt einangrun Fjarðabyggðahallarinnar stærstar, 100 milljónir eru áætlaðar í hvort verk. Níutíu milljónir fara í að endurnýja eldri hluta leikskólans Dalborgar á Eskifirði, en nýbygging hans var opnuð í vikunni.
Klæða þarf og skipta um glugga á Grunnskóla Reyðarfjarðar fyrir 35 milljónir og byrjað verður á endurbyggingu Stríðsárasafnsins fyrir 40 milljónir. Sextíu milljónir eru settar í fráveituframkvæmdir og aðrar sextíu í hitaveitu. Þá fara 65 milljónir í götur og stíga.
Auknar skuldir A við B
Fræðslu- og uppeldismál verða áfram stærsti einstaki útgjaldaliðurinn, þau taka til sín um helming skatttekna. Skuldaviðmið, sem er hlutfall skulda af reglulegum tekjum, lækkar áfram. Það á að vera komið niður í 60% í heildina og 90% í A-hluta í lok árs en samkvæmt lögum er hámark þess 150%.
Skuldahlutfallið verður 94,8% í samstæðunni, þar af 132,3% á A-hluta. Fram kemur að skuldir A-hluta við fyrirtæki í B-hluta hafi aukist.