Rekstur fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar neikvæður um 156 milljónir króna á síðasta ári
Samkvæmt ársuppgjöri fjölskyldusviðs Fjarðabyggðar fyrir nýliðið ár er staðan verri en ráð var gert fyrir og það um tæpar 156 milljónir króna alls samkvæmt útgönguspá. Fjölskyldunefnd telur brýnt að grípa til aðgerða sem fyrst.
Fjölskyldusvið sveitarfélagsins nær yfir æði víðan radíus í rekstri Fjarðabyggðar enda fer það svið með öll málefni er varða félagsþjónustu, barnavernd, grunn-, leik- og tónlistarskóla og að auki öll æskulýðs- og íþróttamál barna og ungmenna.
Liðið rekstrarár var tekið til umfjöllunar á síðasta fundi fjölskyldunefndar í vikunni en hin neikvæða niðurstaða er sögð skýrast af allnokkrum þáttum. Þar helst töluverð frávik vegna aukins veikinda- og yfirvinnukostnaðar vegna manneklu í leik- og grunnskólum Fjarðabyggðar en ekki síður skiptir máli að orkukostnaður og aðrir fastir útgjaldaliðir hafa hækkað vel umfram þær áætlanir sem gerðar voru fyrir árið.
Í bókun fjölskyldunefndar er sagt afar brýnt að bregðast við þessum neikvæða rekstri og sem fyrst:
„Nefndin leggur áherslu á eftirfarandi aðgerðir á rýni á launakostnaði sviðsins þar sem skilgreina þarf nánar áhrif veikinda og yfirvinnu á launakostnað og vinna að lausnum til að draga úr álagi á starfsfólk. Áfram verði leitast leiða við að hagræða í rekstri og rýna þá liði í rekstrarkostnaði sem hækkað hafa umfram áætlanir, s.s. orkukostnað og áskriftarþjónustu. Að endingu þarf að endurskoða áætlunargerð með það fyrir augum að auka þarf nákvæmni við gerð fjárhagsáætlana til að draga úr frávikum í framtíðinni.“
Veikindi plús mannekla í leik- og grunnskólum Fjarðabyggðar kosta sveitarfélagið drjúgt. Mynd Aðsend