Ríkisstjórnarfundur hafinn á Egilsstöðum

Fundur ríkisstjórnar Íslands í Valaskjálf á Egilsstöðum hófst laust eftir klukkan fjögur í dag. Aðeins eitt mál er á dagskrá, væntanlegar takmarkanir innanlands vegna útbreiðslu Covid-veirunnar.

Bæði fundurinn, sem og fundarstaðurinn, var ákveðinn með skömmum fyrirvara. Hentugast þótti að vera eystra þar sem fjöldi ráðherra ríkisstjórnarinnar var staddur í fríi.

Meðal annars kom Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, keyrandi á fundinn frá Langanesi. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafði verið í fríi á Austurlandi, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var í Vopnafirði.

Þá var Sigurður Ingi Jóhannsson á leið til Vopnafjarðar, en hann kom með leiguflugvél ríkisstjórnarinnar. Með fluginu komu einnig Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð. Kristján Þór Júlíusson var heima hjá sér á Akureyri og keyrði austur en Guðlaugur Þór Þórðarson kom af Suðurlandi.

Þrír ráðherrar boðuðu forföll: Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Búist er við að fundurinn standi í um tvo tíma. Fyrir fundinum liggur minnisblað sóttvarnalækænis. Að honum loknum verður tilkynnt um nýjar takmarkanir innanlands en þær voru allar numdar úr gildi fyrir mánuði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.