Risavaxið verkefni að veiða, vinna og selja loðnukvótann

Forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað segir mikið verkefni bíða austfirskra útgerða við að veiða, vinna og selja mesta magn loðnu sem leyft hefur verið að veiða við Ísland í tæp tuttugu ár. Hann segir verkefnið þó spennandi og fagnar góðri stöðu loðnustofnsins.

„Það verður handagangur í öskjunni á komandi mánuðum, við erum að fá alvöru vertíð. Við munum sjá öll framleiðslutæki verða sett í gang og skipin á fullu gasi,“ segir Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar.

Rúm vika er síðan tilkynnt var að heimilt yrði að veiða yfir 900.000 þúsund tonn af loðnu í íslenskri lögsögu. Þar af fá íslenskar útgerðir um tvo þriðju hluta aflaheimildanna. Á undanförnu hefur þróunin orðið sú að nær allri loðnu er landað frá Þórshöfn í norðri til Hafnar í Hornafirði í suðri að svo viðbættum Vestmannaeyjum.

Árin 2019 og 2020 veiddist engin loðna og lítil í byrjun þessa árs. Reyndar eru hátt í 20 ár síðan álíka loðnukvóti var gefinn út. Hagfræðingar hafa reiknað út að þessi mikli kvóti geti aukið hagvöxt á Íslandi um 1%.

Minni afköst í bræðslunum

En loðnuvinnsla hefur breyst mikið frá síðasta stóra ári 2003. Gunnþór bendir á að fiskimjölsverksmiðjurnar í landinu afkasti í dag tæpum 12 þúsund tonnum á sólarhring en hafi áður afkastað tæpum 18 þúsund tonnum. „Bræðslurnar hafa verið í aukahlutverki síðustu ár en verða númer eitt núna. Við erum með afkastamestu bræðsluna hér og svo mun verksmiðjan á Seyðisfirði líka fá að snúast,“ segir Gunnþór.

Á sama tíma og afköst bræðslnanna hafa minnkað hefur meira verið unnið til manneldis. Þar verða hins vegar áskoranir við að koma fiskinum á markað. „Út af Covid-faraldrinum er allt þyngra í vöfum. Flutningskerfi heimsins eru hægari og aðgengi að aðföngum er erfiðara ,“ segir Gunnþór og bætir við að þetta hafi líka áhrif á aðföng fyrir veiðarnar og vinnslurnar. Því sé allt kapp lagt á áætla hvað þurfi og koma því sem fyrst í ferli.

Annað vandamál er innflutningsbann á völdum íslenskum vörum á Rússlandsmarkað frá árinu 2015, sem sett var vegna stuðnings Íslendinga við refsiaðgerðir Evrópusambandsins. „Viðskiptabannið bítur fast núna því okkur vantar manneldismarkaði fyrir mikið magn. Við bentum á hættu á að ekki væri um aðra markaði en Rússland að ræða fyrir stóran hluta af heilli loðnu sem fryst væri, um leið og ráðist var í aðgerðirnar. Við töldum okkur geta unnið úr öðrum áhrifum en á loðnuna. Þetta er fyrsta stóra loðnuárið síðan bannið var sett. Þess vegna er það mikið verkefni að finna markaði. Við þurfum að hámarka afkastagetu manneldisvinnslunnar til að ná kvótum.“

Vegna lítilla veiða síðustu þrjú ár var verðið sem fékkst fyrir loðnuafurðir á síðustu vertíð það hæsta sem nokkru sinn hefur sést. Aðspurður svarar Gunnþór viðbúið að verðið lækki verulega með auknu framboði, þessi markaðir eru mjög næmir fyrir markaði.

Gunnþór segir að útgerðirnar skoði nú hvernig þær takist á við þessa stóru vertíð. Venjulega hefur veiði hafist í janúar en Gunnþór segir að jafnvel verði reynt að byrja strax í nóvember.

Ánægjulegt að sjá sterka loðnu

En síðast en ekki síst verður að hafa það í huga að loðnan er hvikull fiskur. „Þetta risavaxna verkefni kemur flatt upp á okkur því við reiknuðum ekki með svona sprengingu miðað við þær nýju aflareglur sem notast hefur verið við síðustu tíu ár, höfum við verið að aðlaga okkur að því.

Það er hins vegar ánægjulegt að sjá þetta magn og við fögnum því að loðnustofninn sé sterkur. Þessi vertíð mun skipta Austurland og Ísland allt mjög miklu máli. Við reynum okkar besta með að skipuleggja veiði- og framleiðslugetu. Það sem við getum ekki skipulagt er hvernig loðnan hagar sér. Til að þetta gangi upp þurfa veðurguðirnir að vera okkur hagstæðir og fiskurinn þarf að mæta á rétta staði. Við erum vertíðardrifin það breytist ekkert, allir munu leggjast á eitt með að láta þetta ganga.“

Óttast hefur verið um loðnustofninn vegna þess hve slakur hann hefur verið síðustu ár en Gunnþór vonast til að bjartara sé framundan. „Ungloðnumælingin fyrir næsta ár er góð og við erum bjartsýnir á jákvæð ár framundan.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.