Skip to main content

Rýmingum að ljúka á Seyðisfirði og Norðfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. jan 2025 17:06Uppfært 19. jan 2025 17:08

Rýmingu vegna snjóflóðahættu er lokið á Seyðisfirði og á lokametrunum í Neskaupstað. Yfir 100 manns hafa samanlagt þurft að fara að heiman í dag.


Á Seyðisfirði voru rýmdir fjórir reitir, að utanverðu sitt hvoru megin í firðinum. Þeir eru fyrst og fremst atvinnusvæði, þó eru fimm hús þar skráð sem íbúðarhús.

Í Neskaupstað voru rýmdir tveir atvinnureitir og einn íbúðareitur. Á honum standa 45 íbúðarhús. Alls eru því 50 íbúabyggingar rýmdar þannig að vel yfir 100 manns þurfa að fara að heiman. Miðað við veðurspá er viðbúið að rýmingarnar standi til þriðjudags.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hafa rýmingarnar gengið vel og ekki borist upplýsingar um annað en vel hafi gengið að koma fólki í skjól.

Varðskipið Freyja er á leið austur og mun sigla til Neskaupstaðar því aðgerðirnar eru umfangsmeiri þar. Því er ætlað að vera til taks.

Færð á vegum á Austurlandi er farin að spillast. Lokað hefur verið yfir Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og Vatnsskarð. Staðan verður metin í fyrramálið. Þæfingur er víða á norðanverðu Fljótsdalshéraði.

Hægt er að sjá rýmingarreitina í kortavefsjá Fjarðabyggðar og Múlaþings. Valið er „skipulag“ og „rýmingarsvæði“ úr valmynd.

Fjöldahjálparmiðstöð fyrir Neskaupstað er í Egilsbúð en í Herðubreið á Seyðisfirði. Íbúar, sem upplifa óþægindi, eru hvattir til að koma við í miðstöðunum eða hringja í hjálparsíma Rauða krossins, 1717.

Rýmd íbúðarhús í Neskaupstað:
Víðimýri 9,11,12,13,14,16,17,18.
Mýrargata 9,11,13,15,17,19,21,23,25,29
Starmýri 15, 17, 19, 21, 23
Hrafnsmýri 1,2,3,4,5,6,
Gauksmýri 1,2,3,4,5,6
Valsmýri 1,2,3,4,5,6
Nesbakki 14, 16, 19 og 21

Rýmd íbúðarhús á Seyðisfirði
Strandarvegur 27, 29 og 33
Ránargata 8 og 9

Björgunarsveitin Gerpir í Neskaupstað aðstoðaði við rýmingu í dag. Mynd: Landsbjörg